Nær 40% allra Spánverja myndu kjósa ólýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag með sterkum leiðtoga fram yfir lýðræði. Hlutfallið er það mesta sem mælt er á Vesturlöndum, en skoðanir Bandaríkjamanna eru ekki ósvipaðar þeim að miklu leyti. Þetta kemur fram í nýrri frétt El Nacional.
Í fréttinni er fjallað um niðurstöður könnunarinnar World Values Survey, en nýjasta útgáfa hennar tók saman viðhorf í 60 löndum á tímabilinu 2010 til 2014. Í könnuninni voru viðmælendur meðal annars spurðir hvert viðhorf þeirra væri til stjórnarfyrirkomulags sem hefði sterkan leiðtoga og þyrfti ekki að lúta vilja þings eða kosninga. Svarmöguleikarnir voru fjórir: Mjög hlynntur, frekar hlynntur, frekar andvígur og mjög andvígur.
Alls voru 7,6% Spánverja mjög hlynntir slíku stjórnarfyrirkomulagi og 31,9% þeirra frekar hlynntir. Samtals svöruðu því 39,5% spurningunni á jákvæðan hátt, en það hlutfall er það mesta sem mælt var á Vesturlöndum og litlu minna en í Pakistan (42%) og Nígeríu (48%).
Hlutfallið hefur hækkað
Hlutfall þeirra sem vilja andlýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag á spáni hefur stóraukist síðan á tíunda áratugnum, en þá svöruðu einungis um 25% landsmanna spurningunni á jákvæðan hátt. Heilt yfir könnunina fór meira fyrir andlýðræðislegum skoðunum á árunum 2010-2014 heldur en 1995-1997, en umrætt hlutfall hækkaði hjá 23 af 30 löndum sem spurð voru þessarar spurningar.
Í öðru sæti meðal Vesturlanda eru Bandaríkin, en þar vilja um 30% landsmanna andlýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag samkvæmt könnuninni. Þar hefur hlutfallið hækkað úr 20% frá tímabilinu 1995-1997.