Lántaka fólks og fyrirtækja hjá íslenskum bankastofnunum hefur ekki aukist jafnhratt frá hruni, ef miðað er við ársgrundvöll. Þetta kemur fram ef rýnt er í hagtölur Seðlabanka Íslands sem birtust í gær.
Samkvæmt hagtölunum aukast umsvif íslenskra banka nokkuð milli mánaða, en í júní námu eignir innlánsstofnanna tæpum 3.600 milljörðum króna og hækkuðu um 48,2 milljarða frá mánuðinum á undan. Þar af námu innlendar eignir um 3.200 milljörðum, en erlendar eignir um 401 milljörðum. Innlendar skuldir hækkuðu um 42,2 milljarða í mánuðinum og námu 2.329 milljörðum, en erlendar skuldir námu 653,7 milljörðum og hækkuðu um 456 milljónir.
Ef litið er sérstaklega á útlán bankakerfisins, þá stóðu þau alls í 2.730 milljörðum í lok júní. Þar af voru innlend útlán bankakerfisins 2.556 milljarðar króna og jukust um 12% frá því á sama tíma og í fyrra. Sömuleiðis jukust erlend útlán um 32,7%, eða úr 132 milljörðum í 175 milljarða. Þetta eru stærstu hækkanir útlána á ársgrundvelli frá fjármálahruninu árið 2008.
Góðæristíminn á árunum rétt fyrir hrun einkenndist af stóraukinni skuldsetningu, en frá 2005 til 2008 jukust innlend útlán að jafnaði um 50% á ári og erlend útlán tvöfölduðust á hverju ári. Á árunum rétt eftir hrun tók svo við nokkur samdráttur í útlánastarfi bankanna, og eftir það stöðugur en hægur vöxtur innlendra útlána um 5% á ári og sveiflukenndur samdráttur erlendra útlána.