Hagvöxturinn á ársgrundvelli í Bandaríkjunum náði 4,1 prósenti á öðrum ársfjórðungi og hefur ekki verið meiri þar í landi í fjögur ár. Vöxturinn er drifinn áfram af einkaneyslu, en sérfræðingar spá því að hann muni minnka á næstu ársfjórðungum. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.
Samkvæmt fréttinni jókst einkaneysla um fjögur prósent auk þess sem fjárfestingar utan fasteigna jukust um 7,3 prósent á ársfjórðungnum. Einnig jókst útflutningurinn frá landinu töluvert, en Bloomberg segir aukninguna meðal annars vera vegna mikillar aukningar í útflutningi sojabauna rétt fyrir tollaálagningu frá Evrópusambandinu. Alls var fjórðungur hagvaxtarins rakinn til aukins útflutnings á tímabilinu.
Mikið gekk á á umræddu tímabili í efnahagslífi Bandaríkjanna, en ríkisstjórn landsins, með forsetann Donald Trump í fararbroddi, stóðu meðal annars að mestu skattalækkun margra áratuga til fyrirtækja og auðugra í landinu. Einnig hratt ríkisstjórnin af stað viðskiptastríði gegn Evrópusambandinu, Rússlandi, Kanada og Kína, en Kjarninn greindi frá nýtilkomnum samningaviðræðum milli Bandaríkjanna og ESB í þeim málum. Tollastríðið milli viðskiptaríkja Bandaríkjanna virðast hins vegar ekki hafa haft áberandi slæm áhrif á efnahaginn, þar sem hagvaxtartölur landsins hafa ekki verið jafnháar síðan árið 2014.
Sérfræðingar frá Bloomberg spá hins vegar nokkurri kólnun í hagkerfi Bandaríkjanna í náinni framtíð. Væntanlegar eru vaxtahækkanir frá seðlabanka landsins, auk þess sem áhrif skattalækkananna gætu farið að dvína og enn sé hætta á frekari tollalagningu hjá helstu viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna.