Full ástæða er til að bregðast við áhyggjum fólks af jarðakaupum erlendra aðila hér á landi, að mati Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þar sem rætt er við Sigríði um mál sem snúa að jarðakaupum fjárfesta hér á landi.
Hún segir í viðtali við Morgunblaðið að það hafi orðið vart við áhyggjur vegna kaupa rammíslenskra aðila á jörðum í gegnum árin. „Ég veit að margir, þar á meðal erlendir aðilar, hafa keypt jarðir í gegnum félög eða með því að kaupa hluti í félögum sem eiga jarðir. Lögin heimila það. Það væri mögulegt að kveða á um það í lögum að það yrði að liggja fyrir hvaða einstaklingar eiga félögin, telji menn að það skipti máli í sjálfu sér. Fyrir því eru fordæmi eins og varðandi eignarhald á flugfélögum, en það er mjög sérstakt fordæmi,“ segir Sigríður í viðtaliu við Morgunblaðið.
„Hafi menn áhuga á að takmarka eignarhald á jörðum með einhverjum hætti þá verður að gera það með lögum og fylgja því svo eftir. Það má draga í efa að það sé framkvæmanlegt að fylgjast með því með góðu móti. Það vill líka oft gleymast í þessu samhengi að það felst í fullveldisrétti Íslands að löggjafinn getur alltaf sett eignarhaldi skorður til að ná einhverjum samfélagslegum markmiðum. Menn þurfa svo að komast að niðurstöðu um hvert hið samfélagslega markmið er. Við Íslendingar förum alltaf með skipulagsvaldið. Það má ekki gleyma því. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort jarðeigendurnir eru Íslendingar eða útlendingar, eitt verður yfir alla að ganga,“ segir Sigríður í viðtali við Morgunblaðið.
Fjallað var ítarlegar um jarðarkaup erlendra fjárfesta á Íslandi í Morgunblaðinu á dögunum, og kom þar meðal annars fram að Jim Ratcliffe, breskur fjárfestir, hefði í samvinnu við innlenda fjárfesta hér á landi keypt tugi jarða, einkum á Austurlandi og Norðausturlandi, á undanförnum árum.