Ásthildur Sturludóttir fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð verður nýr bæjarstjóri á Akureyri.
Meirihluti L-listans, Framsóknar og Samfylkingar hafa ákveðið að ganga til samninga við Ásthildi um starfið.
Ásthildur gegndi sveitarstjórastöðunni í Vesturbyggð frá árinu 2010 og var bæjarstjóra efni D-listans þar fyrir kosningarnar í vor en lét af störfum þar í kjölfar þess að nýr meirihluti ákvað að auglýsa starfið.
Ásthildur tekur við af Eiriki Birni Björnssyni sem verið hefur bæjarstjóri á Akureyri síðustu átta ár.
Ásthildur er með BA-próf í stjórnmálafræði frá HÍ og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Hún hefur starfað sem verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands auk þess sem hún var verkefnisstjóri við byggingu Hörpunnar, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Þá var hún framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.