Heildarvirði skráðra félaga fór yfir þúsund milljarða króna með skráningu Arion banka, og ætti skráningin að vera lyftistöng fyrir íslenskan fjármagnsmarkað.
Margt bendir þó til þess að sænski markaðurinn verði aðalvettvangur fyrir viðskipti með hlutabréf í bankanum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein í Vísbendingu sem kemur til áskrifenda á föstudaginn, sem Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur í eignastýringu hjá Kviku banka, skrifar.
Í greininni er einnig fjallað um stöðu mála á hlutabréfamarkaði, en hann hefur einkennst af miklum lækkunum og minnkandi veltu að undanförnu.
„Um langt skeið hefur legið fyrir að of mikið eigið fé er bundið í íslensku viðskiptabönkunum. Jákvæðir einskiptisliðir hafa að miklu leyti litað uppgjör bankanna á síðustu árum en nú þegar slíkir þættir heyra brátt sögunni til verður æ erfiðara fyrir bankana að skila viðunandi arðsemi. Arðsemi eigin fjár Arion Banka nam 6,6% á síðasta ári en aðeins 3,6% á fyrsta ársfjórðungi 2018. Á næstu árum er stefnt að því að ná 10% arðsemi eigin fjár og lækka kostnaðarhlutfall niður í u.þ.b. 50%. Það eru býsna metnaðarfull áform.
Eitt helsta verkefni sem stjórnendur Arion standa frammi fyrir er að lækka eiginfjárþátt A úr núverandi 23,6% hlutfalli niður í 17%, m.a. með útgáfu víkjandi skuldabréfa og breytanlegra skuldabréfa. Umfram eigið fé bankans, sem mætti útdeila til hluthafa með því að lækka eiginfjárhlutfallið á næstu misserum, gæti hlaupið á 50 milljörðum króna eða um þriðjungi af núverandi markaðsverðmæti bankans. Margir fjárfestar velta að auki fyrir sér hvað verður um eignarhlut bankans í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor, hlutur sem metinn er á 16 milljarða króna í bókum bankans. Mikil áhersla hefur verið lögð á tekjuvöxt Valitor en sá vöxtur kostar sitt og hefur litað uppgjör móðurfélagsins með neikvæðum hætti. Erlendis ganga fyrirtæki í þessum geira kaupum og sölum á háum verðmiðum og þar er oft veltuvöxtur mælikvarði á verð fyrirtækja,“ segir meðal annars í grein Eggerts Þórs.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.