Evrópusambandið og leiðtogar stærstu viðskiptavelda Asíu vilja eiga formlegar viðræður til að ræða viðbrögð við tollastríði Trumps Bandaríkjaforseta.
Frumkvæðið að tollastríðinu sem þegar er skollið á hefur komið frá Donald Trump Bandaríkjaforseta, en Evrópusambandið og helstu leiðtogar Asíuríkja, þar á meðal Kína, vilja hefja formlegar viðræður til að kanna mótvægisaðgerðir gegn tollahækkunum Bandaríkjastjórnar.
Bloomberg greindi frá því í dag að stefnt sé að formlegum fundi með fulltrúum frá 51 einni þjóð í Evrópu og Asíu, 18. og 19. október næstkomandi. Á þeim fundi verður rætt um viðbrögð við þeim aðgerðum sem Bandaríkjastjórn hefur þegar gripið til, sem eru tollar á innfluttar vörur frá mörgum af helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna og síðan einnig ákvörðunin um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, sem miðar að því að draga úr mengun samkvæmt tímasettum markmiðum til að vinna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.
Trump hefur hótað því að setja á tolla á Kína og fleiri Asíuríki, sem ná til viðskipta upp á 500 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 53 þúsund milljarða króna.
Það sama á við um Evrópuríki, en tollar sem lagðir hafa verið á málminnflutning til Bandaríkjanna, stál og ál, ná til Evrópuríkja.
Svo virðist sem Evrópusambandið og Asíuríki séu nú að stilla saman strengi, og ætli sér að grípa til samstilltra aðgerða, til að bregðast við tollastríði Trumps.
Meginmarkmið Trumps með tollunum og höftum á viðskiptafrelsi, er að örva hagkerfið heima fyrir, en afar deildar meiningar eru um hvort það takist. Til lengdar litið, er talið að tollastríðið geti leitt til þess að allir sem verða fyrir áhrifum tapi á því, og í versta falli geti það leitt til félagslegs óstöðugleika.