Markaðsvirði Icelandair hefur fallið um 150 milljarða króna frá því það fór hæst í apríl 2016, en það var þá 187 milljarðar króna. Núna er það hins vegar 37 milljarðar.
Á innan við mánuði hefur það lækkað um 38 prósent. Við opnun markað í dag lækkaði það um 1,24 prósent, eftir rúmlega 10 prósent tap í gær og hrun í verði dagana þar á undan, eftir að afkomuspá félagsins var uppfærð til hins verra.
Félagið hefur tapað 6,3 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Tapið skýrist aðallega af hækkun olíuverðs og sveiflum á gengi krónunnar, en forstjóri félagsins, Björgólfur Jóhannsson, segir að fleiri þættir komi til sem félagið geti haft áhrif á. Félagið hefur að undanförnu breytt skipulagi sínu og mun ganga lengra í þeim efnum, samkvæmt Björgólfi.
Finnst verst í lækkun Icelandair að hún geti átt sér stað á grunni nánast engrar veltu. Í dag t.d 10% lækkun á 80 https://t.co/7NnZ5p85Yy. veltu. Agalegt að markaðurinn sé svona þunnur, varla hægt að kalla það markað þegar svona velta breytir markaðsvirði um marga milljarða.
— Björgvin Ingi Ólafs. (@bjorgvinio) August 1, 2018
Niðurstaða annars ársfjórðungs er tap upp á 25,7 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 2,7 milljarða króna.
Flugfélög hafa mörg hver gengið í gegnum erfiða tíma að undanförnu vegna hækkandi verðs á olíu, og harðrar samkeppni. Helsti samkeppnisaðili Icelandair í flugi til Íslands, WOW Air, hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2017 eða upplýsingar um rekstur félagsins á þessu ári.
Töluverðs titrings hefur gætt á mörkuðum vegna stöðu flugfélagana, enda er flugrekstur hluti af burðarstólpa í íslensku atvinnulífi sem ferðaþjónustan í heild er orðin. Vöxtur hennar hefur verið hraður. Í fyrra komu um 2,7 milljónir ferðamanna til landsins, en til samanburðar voru þeir innan við 500 þúsund árið 2010.