Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur og varaformaður Samfylkingarinnar, segist vísa ávirðingum minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur til föðurhúsanna í einu og öllu í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn, og formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu fyrr í dag og lýstu yfir áhyggjum af þekkingarleysi formanns velferðarráðs Reykjavíkur og varaformanns Samfylkingarinnar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík. Tilefnið var ummæli hennar í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Heiða Björg segir í yfirlýsingu sinni að Reykjavíkurborg hafi úthlutað lóðum og greitt stofnframlög með yfir 1000 íbúðum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga. Meðal annars til Bjargs, byggingarfélags launafólks. Stendur hún því við orð sín í Vikulokunum í morgun. „Að halda öðru fram stangast á við staðreyndir eins og sjá má í meðfylgjandi umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og á meðfylgjandi mynd,“ segir hún. Þar vísar hún í umsögn um tillögu um afnám áhrif byggingarréttargjalds á byggingarkostnað félagslegra íbúða og íbúða sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum leigufélögum frá 16. júlí síðastliðnum.
Heiða Björg segir jafnframt að það sé beinlínis rangt að byggingarréttargjald standi í vegi fyrir byggingu félagslegs húsnæðis eins og kom fram í yfirlýsingu minnihlutans og formanns VR.
„Staðreyndin er sú að ekkert sveitarfélag í landinu stendur eins myndarlega að uppbyggingu félagslegs húsnæðis og húsnæðis í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og husnæðisfelög sem ekki eru rekin i hagnðarskyni, og Reykjavík gerir. Ef önnur sveitarfélög á höfuðborgasvæðinu kæmu að þessu málum með jafn öflugum hætti og Reykjavík væri hér enginn húsnæðisvandi,“ segir hún.
Í tilefni af yfirlýsingu minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur er rétt að fram komi, eins og skýrt kom einnig fram í...
Posted by Heiða Björg Hilmisdóttir on Saturday, August 4, 2018