Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að sú þróun að fjölmörg flugfélög fljúga nú hingað til lands skipti meira máli heldur en þróun á olíuverði eða afkoma íslensku flugfélaganna. Hann segir að Ísland sé að fara að verða umferðarmiðstöð Atlantshafsins.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Ásgeir segir í þessu samhengi að beinum flugferðum til og frá Íslandi, í gegnum Keflavíkurflugvöll sem höfn, hafi fjölgað verulega með tilheyrandi netáhrifum. „Ég tel að þessi þróun haldi áfram, hvort sem íslensku flugfélögin verði áfram leiðandi í þeirri þróun eða hve mikið af þessu ferðafólki gerir sér ferð inn í landið sjálft.“
Hann segir jafnframt í samtali við Fréttablaðið að vöxtur ferðaþjónustunnar verði ekki lengur eins „fyrirhafnarlaus“ og verið hefur. „Við munum þurfa að vinna heimavinnuna okkar til þess að ná áframhaldandi árangri. Það þýðir ekki eingöngu að reiða sig á sjarma landsins líkt og verið hefur. Fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að huga betur að rekstrinum og hvaða hópum þau ætla að þjóna. Miklar kostnaðarhækkanir og gengishækkun hafa sett gríðarlegan þrýsting á hagræðingu í greininni,“ segir Ásgeir.
Kjarninn hefur fjallað um afkomu íslensku flugfélaganna en Icelandair tapaði 6,3 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Tapið skýrist aðallega af hækkun olíuverðs og sveiflum á gengi krónunnar, en forstjóri félagsins, Björgólfur Jóhannsson, segir að fleiri þættir komi til sem félagið geti haft áhrif á. Félagið hefur að undanförnu breytt skipulagi sínu og mun ganga lengra í þeim efnum, samkvæmt Björgólfi.
Flugfélög hafa mörg hver gengið í gegnum erfiða tíma að undanförnu vegna hækkandi verðs á olíu, og harðrar samkeppni. Helsti samkeppnisaðili Icelandair í flugi til Íslands, WOW Air, hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2017 eða upplýsingar um rekstur félagsins á þessu ári.
Töluverðs titrings hefur gætt á mörkuðum vegna stöðu flugfélaganna, enda er flugrekstur hluti af burðarstólpa í íslensku atvinnulífi sem ferðaþjónustan í heild er orðin. Vöxtur hennar hefur verið hraður. Í fyrra komu um 2,7 milljónir ferðamanna til landsins, en til samanburðar voru þeir innan við 500 þúsund árið 2010.
Ásgeir segir að hærri fargjöld geti haft þau áhrif að fólk ferðist minna. Lágt olíuverð og lág fargjöld hafi átt þátt í vexti ferðaþjónustunnar. „Meira máli skiptir þó að Keflavíkurflugvöllur hefur verið ryðja sér til rúms sem flutningamiðja á Atlantshafi. Sá vöxtur hefur skapað margar beinar og breiðar leiðir til landsins frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu og aukið aðgengi að landinu. Það hefur verið megindrifkrafturinn að baki mikilli fjölgun ferðamanna á undanförnum árum,“ segir Ásgeir við Fréttablaðið.