Á næstu árum gætu skapast töluverð tækifæri á því að kaupa hlutabréf í íslenska fjármálakerfinu. Kaupþing á enn eftir að losa um að minnsta kosti þriðjungshlut í Arion banka og stefnir á að losa um þá hluti á næstu 12 til 18 mánuðum.
„Það blasir við að þrátt fyrir að nær allir sem sóttust eftir því að kaupa í hlutafjárútboðinu á dögunum hafi fengið mun minna en væntingar stóðu til, þá er mikið magn hlutabréfa bankans enn óselt. Hafi innlendir fjárfestar á borð við lífeyrissjóði áhuga á að eignast íslenskan banka þá heldur ríkissjóður enn utan um stóran hluta af fjármálamarkaðnum í gegnum eignarhald á Íslandsbanka og Landsbanka. Það verður líklega nóg af íslenskum bankahlutabréfum til sölu fyrir þolinmóða fjárfesta á næstu misserum.“
Þetta er meðal þess sem er til umfjöllunar í ítarlegri grein um skráningu Arion banka og stöðuna á hlutabréfamarkaði, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur í eignastýringu hjá Kviku banka, skrifar um þessi mál, en skráning Arion banka er með umfangsmestu nýskráningum þessa árs, á Íslandi og í Svíþjóð.
Íslenska ríkið á Íslandsbanka og Landsbankann, en samkvæmt opinberri stefnu hyggst ríkið selja Íslandsbanka en eiga eftir í það minnsta stóran eignarhlut - um þriðjung eða svo- í Landsbankanum, til framtíðar litið.
Eigið fé ríkisbankanna er samtals um 450 milljarðar króna.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.