Umfang deilihagkerfisins á Íslandi er mest í heimi, samkvæmt nýjum mælikvarða frá sænsku hugveitunni Timbro. Hugveitan nefnir sérstaklega þátt ferðaþjónustunnar í þessu samhengi og segir hana hafa verið grundvöll fyrir vöxt deilihagkerfisins hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Timbro.
Mælikvarðinn, Timbro Sharing Economy Index (TSEI), var mældur í alls 213 löndum og byggir á rannsókn á 4500 fyrirtækjum. 286 þessarra fyrirtækja eru skilgreind sem deilihagkerfisfyrirtæki út frá skilgreiningu hugveitunnar. Stærst þeirra var Airbnb, með um það bil 1,5 milljón virkra gestgjafa. Löndin voru svo röðuð upp eftir TSEI-mælikvarðanum, en þar var Ísland langefst.
Smáríki voru öll áberandi í efstu sætum listans, en á eftir Íslandi fylgdu Turks-og Caicoseyjar, Malta, Svartfjallaland og Nýja-Sjáland. Meðal iðnríkja sem skoruðu lægst á listanum voru svo Lúxemborg og Slóvakía.
Ferðaþjónustan meginþátturinn
Samkvæmt Timbro einkennir mikill ferðamannaiðnaður, góðir innviðir í netþjónustu og efnahagslegt frelsi lönd með háa TSEI-einkunn. Hugveitan skoðaði einnig helstu áhrifaþættina á Íslandi, en samkvæmt henni má fyrst og fremst skýra stærð deilihagkerfisins með þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað sækja á ári hverju. Einnig segir í skýrslunni að sveigjanleiki deilihagkerfisins hafi verið meginþáttur í því að halda í við þá miklu eftirspurnaraukningu í íslenska þjónustu sem átti sér stað fyrir tæpum áratug með risi ferðaþjónustunnar og þannig stuðlað að góðærinu sem fylgdi því.
Aðalhöfundur skýrslunnar er hagfræðingurinn Alexander Funcke hjá háskólanum í Pennsylvaníu, en Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og fyrrverandi aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, vann einnig að henni. Skýrslan var svo gefin út af sænsku hugveitunni Timbro, sem sérhæfir sig í málum tengdum einstaklings-og markaðsfrelsi.