Neytendastofa hefur sent inn umsögn við drög að lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en stofnunin vill að lögin taki líka til kaupenda gulls og annarra eðalmálma, ekki einungis seljanda. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Samkvæmt núverandi drögum að lögunum verða einungis seljendur eðalsteina og -málma skráningarskyldir. Neytendastofa, eini umsagnaraðili frumvarpsins, leggur til að kaupendur sem hafa milligöngu um verslun með slíkan varning verði einnig skráningarskyldir. Neytendastofa telur þar af leiðandi að ákvæðið eigi ekki aðeins að ná til aðila sem „selja“ eðalmálma- og steina heldur einnig aðila sem „kaupa“ slíkar vörur.
Fram kemur í umsögn Neytendastofu að viðskipti með eðalmálma með milligöngu þriðja aðila hafi farið vaxandi á undanförnum árum. „Til að mynda hafa komið hingað til lands erlendir aðilar í innkaupaferðir gagngert til að kaupa eðalmálma eða eðalsteina af íslenskum neytendum og auglýst í fjölmiðlum komu sína og tímabil heimsóknarinnar. Vandséð er að ákvæðið nái til slíkrar starfsemi“, segir umsögninni.
Í drögunum að frumvarpinu kemur fram að frumvarpið sé samið af starfshópi sem dómsmálaráðherra skipaði til innleiðingar á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins og valin ákvæði úr fimmtu peninga-þvættistilskipun Evrópusambandsins. Fjórða peningaþvættistilskipunin tók gildi í Evrópusambandinu 27. júlí 2017 og verður tekin upp í EES-samninginn í október 2018.
„Þrátt fyrir að um heildarskoðun laganna sé að ræða byggja þau á grunni eldri laga. Meginefni laganna snýr að skyldu tilkynningarskyldra aðila til að framkvæma áreiðanleikakönnun, haga innra skipulagi með þeim hætti að þeim sé kleift að greina grunsamlegar færslur og tilkynna til skrifstofu fjármálagreiningu lögreglu allar grunsamlegar færslur eða viðskipti.
Til að tryggja að einstök ákvæði frumvarpsins séu ekki of íþyngjandi fyrir litla tilkynningarskylda aðila sem stunda einsleita starfsemi er gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til til stærðar, eðlis og umfangs tilkynningarskyldra aðila og margbreytileika starfseminnar,“ segir í drögunum.
Frestur til að skila inn umsögnum við frumvarpið rennur út á morgun.