Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir yfirlýsingar um komandi átök í kjaramálum ótímabærar og óskynsamlegar. Enn fremur telur Bjarni það vera aðalatriði að atvinnustig sé hátt og að besta leiðin til að hækka lægstu launin sé með aukinni verðmætasköpun. Þetta kemur fram í viðtali Bítisins á Bylgjunni við Bjarna í morgun.
Í viðtalinu sagði Bjarni stöðu þjóðarbúsins vera góða um þessar mundir, ytri aðstæður væru góðar og viðskiptajöfnuður Íslands við önnur lönd væri að ná jafnvægi. Aðspurður um hvort hann hefði áhyggjur af samdrætti í efnahagsmálum hérlendis og of miklum fjárfestingum í hótelbyggingum sagði hann ekki svo vera þar sem engin merki væru um það. Því til stuðnings nefndi hann að ytri aðstæður væru hagstæðar um þessar mundir og ekkert sem benti til hruns á viðskiptamörkuðum eða verðhækkana á innfluttum vörum sem myndi leiða til verðbólguskots hér á landi. Þannig væri efnahagslífið á Íslandi í okkar eigin höndum.
Digrar og snemmbúnar yfirlýsingar
Þrátt fyrir góðar ytri aðstæður bætti Bjarni við að helsti óróleikinn sem steðjaði að stöðugleika í hagkerfinu í augnablikinu væri að finna á vinnumarkaðinum. Hann sagðist þó ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af lausum kjarasamningum, en hugnast ekki yfirlýsingar um komandi átök í kjaramálum í vetur. „Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það eru mjög digrar yfirlýsingar og mjög snemmbúnar, finnst mér. Löngu áður en menn setjast niður til viðræðna um kaup og kjör þá eru menn að spá því að allt fari í bál og brand og það finnst mér mjög ótímabært og óskynsamlegt, reyndar,“ sagði fjármálaráðherrann í Bítinu.
Aðalatriðið er hátt atvinnustig
Í því samhengi nefndi Bjarni einnig hækkun heildarlauna í neðstu tekjuþrepunum, en þau hafi komið upp í 300 þúsund krónur á mánuði frá því að hafa verið innan við 200 þúsund krónur fyrir nokkrum árum. Þó sagðist hann ekki geta haldið því fram að nokkur maður geti lifað mjög góðu lífi á þessum lægstu launum, en bætti við að margir sem væru í neðstu tekjuþrepunum væru námsmenn eða í hlutastarfi.
Enn fremur taldi Bjarni aðalatriðið á íslenskum vinnumarkaði vera atvinnustigið og hversu auðvelt það væri að fá vinnu, en hann benti á að atvinnuleysi væri hvergi jafnlágt í Evrópu og á Íslandi.
Aðspurður um hvernig stæði að því að fólk gæti ekki lifað af tekjum sínum í fullu starfi hér á Íslandi sagði fjármálaráðherra að heilmikið hefði verið gert í kjaramálum þess hóps á undanförnum árum. Þar á meðal hafi lægstu launataxtar hækkað um 50 prósent á örfáum árum, en besta leiðin til að hækka slík laun væri með því að skapa meiri verðmæti.