Allt bendir til stöðugasta gengis krónunnar í fjögur ár yfir sumarmánuðina, en talið er að það stafi meðal annars af auknu trausti á íslensku þjóðarbúi. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka um gjaldeyrismarkaðinn sem birtist fyrr í dag.
Mikið flökt í júlí undantekning
Greiningin tók saman gengi krónu undanfarna ársfjórðunga, en það hefur verið býsna stöðugt á undanförnum misserum þrátt fyrir að höftum hafi verið aflétt að mestu og Seðlabankinn sjáist ekki lengur á gjaldeyrismarkaði.
Íslandsbanki bætti þó við að skammtímasveiflur í gengi krónu hafi aukist í júlí og flökt mælst það mesta frá september 2017, en gengi krónu var hins vegar á mjög svipuðum slóðum í lok mánaðarins og það var í byrjun hans. Sömuleiðis er ekki hægt að sjá að leitni hafi einkennt gengisþróun síðustu fjórðunga, heldur hefur krónan sveiflast gagnvart meðalgengi erlendra gjaldmiðla innan u.þ.b. 7 prósent bils frá ágúst síðastliðnum.
Bankinn bendir einnig á að flöktið á krónunni hafi haldist rólegt þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi alfarið haldið sig frá gjaldeyrismarkaði það sem af er ári. Fram á síðasta ár væru inngrip bankans hins vegar verulegur hluti af veltu á markaði, og drægju þau inngrip úr gengisbreytingum sem annars hefðu líklegar orðið umtalsvert meiri á því tímabil.
Traust, jafnvægi og höft sem standa eftir
Í greiningu Íslandsbanka eru þrjár ástæður nefndar á bak við þennan óvænta stöðugleika krónunnar. Í fyrsta lagi segir bankinn ágætt jafnvægi hafa verið milli inn-og útflæðis gjaldeyris upp á síðkastið. Innlendir fjárfestar hafi fjárfest í verulegum mæli utan landsteinanna á meðan fjárfestingar erlendra aðila hér á landi hefur einnig aukist nokkuð. Í öðru lagi er bent á höft á gjaldeyrishreyfingum sem enn eru við lýði, til að mynda hið svokallaða fjárstreymistæki Seðlabankans sem leggi til að mynda þungar kvaðir á erlenda aðila sem kynnu að vilja fjárfesta í skuldabréfum í krónum. Í þriðja lagi nefnir svo Íslandsbanki að aukið traust á íslensku þjóðarbúi vegna stórbættrar erlendrar stöðu, minni skuldsetningar heimila, fyrirtækja og hins opinbera, hækkun lánshæfiseinkunna auk fleiri þátta hafi aukið á þolinmæði gagnvart skammtímasveiflum og dregið úr líkum á fjármagnsflótta.
„Lífleg“ sumur í gengisbreytingum
Samkvæmt Íslandsbanka hefur nokkrar spennu gætt meðal ýmissa þátttakenda á gjaldeyrismarkaði um hvort gengi krónu myndi breytast verulega á sumarmánuðum og þá hvernig. Undanfarin ár hafi tímabilið frá júní fram undir vetrarbyrjun verið „líflegt“ í gengishreyfingum, með 6% veikingu í fyrra, 14% styrkingu árið 2016 og 6% styrkingu árið 2015. Ekkert bendi hins vegar til þess að umtalsverðar breytingar verði á gengi krónu fram í vetrarbyrjun í ár, enn sem komið er. Þó slær greiningardeildin engu föstu og bætir við að „gengishreyfingar gjaldmiðla geta verið hin mestu ólíkindatól og aðstæður á þeim mörkuðum breyst býsna fljótt.“