Fyrstu íbúðakaup á öðrum ársfjórðungi hafa ekki verið fleiri frá hruni. Íbúðalánasjóður telur aukninguna í kaupunum að mörgu leyti vera vegna minni verðhækkana á húsnæði og lágra vaxta. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Í skýrslunni er farið yfir þróun fasteigna-og leigumarkaðarins á síðustu misserum, en samkvæmt henni hefur hækkun íbúðaverðs á ársgrundvelli verið um rúm fimm prósent og leiguverðs um sjö prósent. Leiguverðshækkunin var nokkuð hærri en 5,9% hækkun launavísitölunnar fyrir sama tímabil, en er í takti við meðaltal árshækkunar launa síðan 2012. Sömuleiðis hefur hækkun íbúðaverðs verið hraðari en almenn verðhækkun, en verðbólga síðustu tólf mánuði nam 2,7 prósentum í júlí síðastliðnum.
Ekki fleiri frá hruni
Samkvæmt Íbúðalánasjóði hefur fyrstu íbúðakaupum almennt fjölgað meira en annars konar íbúðakaupum síðan árið 2010. Þá voru fyrstu íbúðakaup um 9% allra íbúðakaupa en nú er hlutfallið um 26%. Í fyrra kom ákveðið bakslag þar sem tímabundið dró úr fjölgun fyrstu íbúðakaupa miðað við annars konar íbúðakaup. Á fyrri helmingi þessa árs snerist þróunin aftur við og fyrstu íbúðakaupum tók að fjölgum.
Lágir vextir og minni verðhækkanir
Í skýrslunni segir að leiða megi að því líkur að miklar verðhækkanir í fyrra hafi gert fyrstu íbúðakaup erfiðari og átt sinn þátt í því að fyrstu kaupum hætti að fjölga í fyrra. Að sama skapi megi leiða að því líkur að í ár hafi skapast aukið svigrúm fyrir suma að ráðast í fyrstu íbúðakaup í ljósi þess að íbúðaverð hafi ekki hækkað jafn mikið og í fyrra og vextir á íbúðalánum hafi haldist lágir í sögulegu samhengi.
Fyrirtæki kaupa minna
Íbúðalánasjóður tók einnig saman tölur Þjóðskrár um hlutfall íbúðaviðskipta eftir því hvort það er einstaklingur eða fyrirtæki sem kaupir og selur. Samkvæmt þeim tölum hefur íbúðaviðskiptum þar sem kaupandinn er fyrirtæki farið fækkandi undanfarin misseri. Hlutfall fyrirtækja í íbúðakaupum hækkaði mjög á seinni hluta árs 2012, þá einna helst í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar.