Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í hátíðarræðu sinni í Hljómskálagarðinum í dag að nýtt frumvarp um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfstæði verði lagt fram í vetur. Enn fremur sagði hún réttindabaráttu hinsegin fólks vera ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar.
Katrín hélt ræðu sína við enda Gleðigöngunnar, sem haldin var í dag og markar hápunkt Hinsegin daga í Reykjavík. Í ræðunni rifjaði Katrín upp þeim árangri sem hefur náðst í réttindabaráttu hinsegin fólks á síðustu tveimur áratugum, en bætti þó við að frelsisstríðum ljúki aldrei.
Samkvæmt forsætisráðherra hafa Íslendingar dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks og nefndi þar sérstaklega mannréttindi trans-og intersex fólks sem hún sagði að væri nauðsynlegt að tryggja. Í því sambandi sagði Katrín að frumvarp yrði lagt fram á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. „Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð – þar sem við eigum að vera, af því við getum það og af því að það er rétt,“ bætti hún við í ræðu sinni.
Katrín sagði réttindabaráttu hinsegin fólks vera ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar, og nefndi þar frumvarp up jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu sem samþykkt var í vor því til stuðnings. Einnig benti hún á að ríkisstjórnin hafi tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78.
Þó bætti Katrín við að ekki megi gera ráð fyrir því að framfarir í réttindamálum hinsegin fólks séu sjálfsagðar og sagði aukna fræðslu vera mikilvægar til að stuðla að þeim. „Með því að viðhalda og efla fræðslu, vera vakandi og vinna gegn fordómum, tryggjum við réttindi hinsegin fólks. Og það þurfa allir að standa saman og taka þátt, rétt eins og við gerum saman hér í dag,“ sagði forsætisráðherra.