Mikill samdráttur hefur orðið í bóksölu hér á landi síðustu ár. Samkvæmt Morgunblaðinu varð 5 prósent samdráttur á síðasta ári, 11 prósent árið þar á undan og alls ríflega 31 prósent frá árinu 2008 til 2016. Samtals nemur samdrátturinn á þessum tíu árum um 36 prósentustigum.
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins og fyrrum formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, segir í samtali við Morgunblaðið þessa neikvæðu þróun vera dapurlega. „Fyrir ári síðan sagði ég íslensku bókaútgáfuna komna að þolmörkum og það er auðvitað augljóst að sú staða hefur í engu skánað,“ segir hann.
Salan fyrstu fjóra mánuði ársins gefur ekki góð fyrirheit, segir í Morgunblaðinu, en samkvæmt tölum sem Félag íslenskra bókaútgefenda hefur unnið upp úr gögnum Hagstofunnar nemur samdráttur á þessu ári 5 prósent frá fyrra ári.
Egill segist vona að afnám virðisaukaskatts af bókum hjálpi til við að snúa þessari þróun. „Vonarglætan er kannski ekki síst sú að stjórnvöld hafa lofað afnámi virðisaukaskatts af bókum um næstkomandi áramót. Ég er þeirrar skoðunar að það geti orðið sú viðspyrna sem greinin þarf á að halda. Auðvitað leysir afnám virðisaukaskatts eitt og sér ekki vandann en það gæti orðið eitt stærsta skrefið í þá átt. Ég tel hins vegar að fleiri skref muni þurfa að stíga til þess að snúa þessari vondu þróun við.“
Hann segir við Morgunblaðið að hann bindi þó vonir við að bjartari tímar renni upp, ekki síst með nýjum kynslóðum. „Það er þó ákaflega jákvætt fyrir okkur sem störfum að íslenskri bókaútgáfu að sjá að barna- og unglingabækur hafa átt góðu gengi að fagna á undanförnum misserum. Í því felst stærsta og mesta sóknarfæri bókaútgáfunnar, að fylgja því eftir. Þannig sjáum við suma barna- og unglingabókahöfunda selja bækur sínar í bílförmum á ári hverju. Maður er óneitanlega bjartsýnni á framhaldið þegar unga kynslóðin virðist vera, ef eitthvað er, að taka vel við sér í lestri. Það lofar góðu.“