Mennta-og menningarmálaráðuneytið hefur hafið störf við að móta nýja menntastefnu Íslands til ársins 2030. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir helstu vandamál sem takast þurfi á við vera lesskilning, gagnsæi í upplýsingaöflun og stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Þetta kemur fram í viðtali Bítisins á Bylgjunni við Lilju á dögunum.
Í viðtalinu greinir Lilja frá röð 23 funda sem mun hefjast í byrjun næsta mánaðar og standa yfir út nóvembermánuð. Stýrihópur á vegum mennta-og menningamálaráðuneytisins gengst fyrir fundunum, en markmið þeirra er mótun menntastefnu til ársins 2030. Þar verður helstu tillögur stefnunnar kynntar og ræddar auk aðkomu allra þeirra sem koma að menntamálum í nærumhverfi skólanna. Fundirnir munu fara fram í grunnskólum um allt landið, en betur er greint frá þeim á vef Stjórnarráðsins.
Lesskilningur, gagnsæi og staða erlendra nemenda
Einnig segir Lilja frá helstu vandamálunum sem íslenska menntakerfið þurfi að takast á við og nefnir þar helst læsi nemenda, gagnsæi í upplýsingaöflun og stöðu barna með annað móðurmál en íslensku.
Samkvæmt Lilju hefur lesskilningur íslenskra nemenda hrakað mikið á síðustu árum. „Við vorum í meðaltali Norðurlanda árið 2000, í kringum aldamótin, en allt í einu erum við orðin neðst,“ bætir hún við. Einnig segir hún að mikilvægt sé að upplýsingar um stöðu skóla liggi uppi á borðum, ef fara þurfi í meiri úrbætur í einhverju sveitarfélagið þurfi bara að segja það hreint út.
Að lokum nefnir menntamálaráðherra misjafna stöðu barna í skólakerfinu eftir því sem þau hafa íslensku sem móðurmál eða ekki. Því til stuðnings nefnir hún mun í tölum á brotthvarfi í framhaldsskólum milli þessara tveggja hópa, en um 60 prósent nemenda með íslensku sem móðurmál útskrifast úr framhaldsskóla, samanborið við 30 prósent nemenda með annað móðurmál. „Þarna er himinn og haf sem skilur á milli,“ segir Lilja í viðtalinu.