Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 110 milljörðum íslenskra króna í fyrra, en það var það minnsta sem mælst hefur í níu ár. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.
Samkvæmt tölunum var afli íslenskra skipa tæplega 1,2 milljónir tonna og hafði hann aukist um 109 þúsund tonn frá árinu 2016. Þar af veiddust rúmlega 718 þúsund tonn af uppsjávarfiski, 426 þúsund tonn af botnfiski og tæp 22 þúsund tonn af flatfiski.
Þrátt fyrir aukinn afla dróst verðmæti nær allra fisktegunda saman milli ára um að meðaltali 11 prósent. Heildarverðmæti aflans nam tæpum 110 milljörðum íslenskra króna og var það 17,3 prósent minna en á síðasta ári.
Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur farið nokkuð lækkandi undanfarin ár, en það náði hámarki í tæpum 160 milljörðum árið 2012. Það hefur hins vegar ekki mælst lægra frá því á árinu 2008, en þá nam söluverðmæti aflans tæpum 100 milljörðum króna. Sjá má mynd af þróun aflaverðmætisins á mynd hér að ofan.