Breska kaffihúsakeðjan Costa áformar að opna á Íslandi og leitar að húsnæði í miðbæ Reykjavíkur fyrir starfsemi sína. Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.
Costa er stærsta kaffihúsakeðja Bretlands og sú næststærsta í heiminum á eftir Starbucks, en sú fyrrnefnda rekur 3.800 kaffihús í 32 löndum. Meirihluti þeirra er í Bretlandi en fyrirtækið íhugar nú opnun yfir þúsund nýrra kaffihúsa í Kína á næstu tveimur árum.
Fyrirtækið er í eigu félagsins Whitbread, sem rekur einnig hótelkeðjuna Premier Inn og er skráð á hlutabréfamarkað í London. Samkvæmt Fréttablaðinu hafa stjórnendur Whitbread í hyggju að kljúfa rekstur Costa frá samstæðunni og skrá á hlutabréfamarkað í kjölfar þrýstings frá fjárfestum. Líklegt er að sú vinna muni taka tvö ár.
Misjafnt gengi kaffihúsa
Misjafnt hefur gengið fyrir alþjóðlegar kaffihúsakeðjur að hefja starfsemi sína hér á landi á síðustu árum, þrátt fyrir aukinn áhuga. Fyrir sex árum birtust fréttir þess efnis að Starbucks hefði skráð eitt af vörumerkjum sínum hér á landi hjá Einkaleyfastofu og væri því að kanna mögulega opnun. Ekkert virðist þó hafa orðið af þeim áætlunum og sýndi keðjan Íslandi aldrei formlega áhuga.
Árið 2015 opnaði svo kleinuhringjarisinn Dunkin‘ Donuts fyrsta kaffihúsið sitt á Laugavegi og stefndi að opnun 15 annarra. Þær áætlanir hafa þó ekki gengið eftir að fullu, en kleinuhringjakeðjan rekur nú fjórar verslanir hérlendis og þurfti að loka verslun sína á Laugavegi í fyrra vegna hás húsnæðiskostnaðar.