Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi hafa bannað sölu húsa til erlendra aðila. Þetta kemur fram í frétt The Guardian en þar segir að Nýsjálendingar séu þreyttir á að vera „leigjendur í eigin landi.“ Bannið nær yfir allar aðrar þjóðir, fyrir utan Ástralíu og Singapúr.
David Parker, aðstoðarráðherra fjármála á Nýja-Sjálandi, segir að afleiðingar bannsins verði þær að húsnæði muni verða viðráðanlegra í verði fyrir heimamenn og að framboð aukist.
„Við teljum að markaðurinn fyrir hús og bújarðir á Nýja-Sjálandi eigi að vera fyrir nýsjálenska kaupendur, en ekki þá erlendu,“ segir Parker í viðtali við The Guardian.
Hann segir að bannið komi þeim til góða sem leggi hönd á plóg í efnahagskerfi landsins, borgi þar skatta og eigi fjölskyldur. Hann telur að erlendir efnaðir einstaklingar eigi ekki að geta yfirboðið þetta fólk.
Í fréttinni kemur fram að einungis fjórðungur fullorðinna einstaklinga á Nýja-Sjálandi eigi eigið húsnæði. Til samanburðar er bent á að árið 1991 var það um helmingur og að síðustu fimm ár hafi heimilislausum fjölgað. Sumir Nýsjálendingar séu neyddir til að búa í bílum, skúrum og undir brúm.
Samkvæmt aðstoðarráðherranum eru 10 prósent heimila á Queenstown Lakes-svæðinu í eigu útlendinga og 20 prósent í Auckland.
Í frétt The Guardian kemur enn fremur fram að sala á landareignum hafi einnig blómstrað undir stjórn síðustu ríkisstjórnar en 465.863 hektarar voru seldir til erlendra aðila árið 2016, en það er næstum því sexföld aukning frá árinu áður. Það jafngildir 3,2 prósent af öllu ræktarlandi á Nýja-Sjálandi.
Erlendir aðilar munu þó enn keypt íbúðir í stórum fjölbýlisframkvæmdum, sem eru hugsaðar til að auka við gildi húsbréfa Nýsjálendinga.