Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW Air, ætlar sér að gera félagið markaðsleiðandi á Íslandi strax á næsta ári, gangi áætlun hans eftir. Félagið leitar nú að 6 til 12 milljörðum króna í brúarfjármögnun, til að styrkja fjárhag félagsins og viðhalda miklum vexti félagsins.
Frá þessu var greint í Morgublaðinu og Fréttablaðinu í morgun.
Samið hefur verið við norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities um að hafa umsjón með skuldabréfaútboðinu og á það að klárast á allra næstu vikum eða mánuðum.
Rekstur WOW Air hefur gengið erfiðlega undanfari misseri og var tap félagsins 2,3 milljarðar í fyrra, og um 45 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 4,9 milljarða króna, á tólf mánaða tímabili frá júní í fyrra til júní á þessu ári.
Eiginfjárhlutfall félagsins var komið undir 5 prósent í júní, en frá þeim tíma hefur hlutaféð verið aukið með umbreytingu á kröfum í hlutafé.
Hægt er að skoða fjárfestakynninguna, stóra plan Skúla út úr vanda WOW Air, hér í meðfylgjandi skjali.
WOW Air hefur gegnt mikilvægu hlutverki við fólksflutninga til landsins, á gífurlega miklum vaxtartíma í íslenskri ferðaþjónustu. Til marks um vöxtinn þá fór fjöldi erlendra ferðamanna úr 450 þúsund árið 2010 í 2,7 milljónir í fyrra. Þar hafa WOW Air og Icelandair verið í burðarhlutverkum, en erlend flugfélög einnig.