Rekstrartekjur Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins jukust um 16 prósent í fyrra og námu þær 28,6 milljörðum króna. Hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu, fyrir óinnleysta fjármagnsliði, nam 9,2 milljörðum króna, en hagnaðurinn á tímabilinu nam 5,8 milljörðum króna.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í tilkynningu að rekstur fyrirtækisins hafi þróast með jákvæðum hætti, en fyrri helmingur þessa árs var tekjuhæsti árshelmingur í sögu fyrirtækisins. „Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði á rekstur sem við lítum helst til, er rúmir 9 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 15% frá sama tímabili árið áður. Þá lækkuðu nettó skuldir fyrirtækisins um 5 milljarða króna, eftir að tímabundið hafði hægt á lækkun skulda vegna umfangsmikilla framkvæmda. Í lok júní var hornsteinslagning og gangsetning Búrfellsstöðvar II, átjándu aflstöðvar Landsvirkjunar, og verður hún tekin í fullan rekstur í ágúst 2018. Áður hafði Þeistareykjastöð hafið fullan rekstur í apríl,“ segir Hörður.
Um mitt þetta ár var eigið fé Landsvirkjunar tæplega 2,1 milljarður Bandaríkjadala, eða sem nemur um 225 milljörðum króna.
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum styrkt fjárhagslega stöðu sína verulega með niðurgreiðslu skulda og hækkandi orkuverði.
Þá hefur þróun á álverði verið fyrirtækinu hagstæð að undanförnu, sem hafði jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins á fyrri hluta ársins.