Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að ákæra héraðssaksóknara á hendur honum, sem Kjarninn greindi frá í morgun, hafi komið honum á óvart og séu vonbrigði.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Júlíus Vífill að hann telji „engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi. Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“
Í stöðuuppfærslunni segir hann einnig að honum finnist sem að á undanförnum tveimur árum hafi hann staðið í veðurbáli. „Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum. Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum.“
Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í...
Posted by Julius Vifill Ingvarsson on Friday, August 17, 2018
Þann 5. janúar 2017 kærði skattrannsóknarstjóri Júlíus Vífil til embætti héraðssaksóknara vegna meintra brota á skattalögum og vegna gruns um peningaþvætti. Við síðara brotinu getur legið allt að sex ára fangelsisdómur.
Kjarninn greindi frá því í morgun að embætti héraðssaksóknara hefði ákært Júlíus Vífill fyrir peningaþvætti og að ákæran sé dagsett 28. júní síðastliðinn.