Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur viðbrögð stjórnvalda, erlent vinnuafl og breytta neysluhegðun Íslendinga meðal stærstu ástæðna þess mikla efnahagsárangurs sem Ísland hefur náð á síðasta áratug. Þó bendir hún einnig á að uppgangurinn hafi leitt til mikillar hækkunar á húsnæðisverði og minnkandi samkeppnishæfi útflutningsgreina. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópusambandsins um stöðu Íslands sem birt var nú á dögunum.
Fimm þættir
Samkvæmt skýrslunni er hagkerfi Íslands í sérkennilegri stöðu, þar sem hagvöxtur er mikill samhliða sterkri stöðu ríkissjóðs, lágri verðbólgu og viðskiptaafgangi við útlönd. Þetta sé kúvending frá stöðunni hér á landi fyrir tíu árum síðan, þar sem Ísland var talið vera í hóp landanna sem komu verst úr fjármálahruninu. Þessa þróun telja skýrsluhöfundar vera blanda fjölda þátta, en skýrslan nefnir fimm þeirra sérstaklega,
Viðbrögðum stjórnvalda hrósað
Stærstur þeirra eru viðbrögð stjórnvalda í kjölfar kreppunnar þar sem eignarhaldi bankanna var breytt, fjármálakerfið endurskipulagt og ábyrgri fjármála-og peningamálastefnu var hrint af stað. Hagkerfið fékk svo byr undir báða vængi þegar ferðamönnum tók að fjölga gríðarlega, en sveigjanlegt framboð af erlendu vinnuafli gerði Íslendingum kleift að taka á móti þeirri miklu eftirspurnaraukningu á skömmum tíma.
Ferðamannastraumurinn stuðlaði svo að sterkara gengi krónunnar sem lækkaði verðið á innfluttum vörum. Gengisstyrkingin, auk lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu, hjálpaði til við að halda verðbólgu í skefjum á meðan á þessu hagvaxtarskeiði stóð.
Íslendingar spara meira
Skýrslan nefnir einnig breytta neysluhegðun Íslendinga sem ráðstafaði tekjuhækkun sína á eftirhrunsárunum í aukinn sparnað og kom þannig í veg fyrir bólumyndun í hagkerfinu og viðskiptahalla við útlönd. Þar að auki er vikið að samningum íslenskra stjórnvalda við erlenda kröfuhafa sem leiddi til mikillar skuldalækkunar ríkissjóðs og afléttingu gjaldeyrishaftanna í fyrra.
Hlutverk krónunnar takmarkað
Skýrsluhöfundar telja hlutverk íslensku krónunnar þó einungis hafa verið takmarkað í góðæri síðustu ára. Þeir benda á að mikil verðbólga á árunum 2008 og 2009 hafi verið vegna veikingu krónunnar og hún hafi þannig átt stóran þátt í að stuðla að fjármálakreppunni hér á landi. Einnig benda þeir á að aðrar ástæður virðast liggja að baki aukningu ferðamanna en gengisveiking krónunnar.
Fasteignaverð og mikil gengisstyrking varhugaverð
Til viðbótar við áhrifavalda núverandi góðæris nefnir Evrópusambandið einnig að þróunin hafi einnig haft í för með sér slæmar afleiðingar. Vísbendingar séu um að ungum fjölskyldum sé fælt frá höfuðborgarsvæðinu vegna snarpra húsnæðisverðhækkana í kjölfar eftirspurnaraukningar í gistiplássum vegna ferðamannastraumsins. Enn fremur hefur mikil styrking krónunnar leitt til hrakandi samkeppnishæfi annarra íslenskra útflutningsgreina en ferðamannaiðnaðarins, líkt og upplýsingageirans.
Mjúk lending
Samkvæmt skýrslunni eru fyrstu teikn á lofti um að sterku hagvaxtarskeiði síðustu ára sé að ljúka. Hins vegar, öfugt við góðæri landsins síðustu ára, virðist hagkerfið vera í miklu jafnvægi og ekkert sem bendir til samdráttar. Því spá skýrsluhöfundar mjúkri lendingu fyrir íslenskt efnahagslíf á næstu árum, verði hagkerfið ekki fyrir neinu utanaðkomandi áfalli.