Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í gær með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, um stöðuna í ferðaþjónustunni, meðal annars vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu WOW Air.
„Við stofnuðum samráðshóp sem skoðar kerfislæg mikilvæg fyrirtæki. Sá hópur fór af stað í vor og hefur verið að skoða og greina þjóðhagsleg áhrif ólíkra geira og kerfislægra mikilvægra fyrirtækja,“ sagði Katrín í viðtali við mbl.is.
Hún nefndi sérstaklega í því að fundað hefði verið um stöðu flugfélagana enda sé flugstarfsemi orðin umfangsmikil.
Eins og fram hefur komið þá leitar Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW Air, nú leiða til ná í 6 til 12 milljarða króna brúarfjármögnun, til að styrkja reksturinn og halda áfram vexti félagsins. Efnahagur félagsins hefur veikst hratt að undanförnu og rambar fyrirtækið í raun á barmi gjaldþrots, og er voðinn vís ef það nær ekki að tryggja sér aukið rekstrarfé á næstu mánuðum.
Tap félagsins var 2,3 milljarðar í fyrra, og um 45 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 4,9 milljarða króna, á tólf mánaða tímabili frá júní í fyrra til júní á þessu ári.
Eiginfjárhlutfall félagsins var komið undir 5 prósent í júní, en frá þeim tíma hefur hlutaféð verið aukið með umbreytingu á kröfum í hlutafé. Þá hækkaði viðskiptavild félagsins umtalsvert.
Í fjárfestakynningu WOW Air, sem birt var á vef Kjarnans, kemur fram að á fyrri hluta þessa árs hafi óefnislegar eignir félagsins numið 23 milljónum Bandaríkjadala, þar af er viðskiptavild (e. goodwill) 18,4 milljónir dala eða tæpir tveir milljarðar króna.
Um áramótin voru óefnislegar eignir metnar á fjóra milljónir Bandaríkjadala. Aukningin nemur því 19 milljónum dala eða ríflega tveimur milljörðum króna.
Fjármögnun félagsins er lífsnauðsynleg félaginu á komandi misserum, en Skúli hefur sagt, í orðsendingu til starfsfólks fyrirtækisins, að hann sé bjartsýnn á að fyrirtækinu takist að ljúka fjármögnun á næstu misserum.