Í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga segir að hægt sé að bæta lífskjör með ýmsum öðrum hætti en að fjölga krónum í launaumslögum landsmanna. Færa megi fyrir því rök að svigrúm til launahækkana sé nú minna en árið 2015 þar sem hlutdeild launa í þjóðartekjum hafi hækkað síðan þá og innlendar launahækkanir veikt samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreinanna.
Í skýrslunni, sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, vann segir að við gerð kjarasamninga verði að taka tillit til fleiri þátta sem hafa áhrif á lífsgæði en launahækkana. Þar segir að mörg tækifæri séu „til að bæta lífskjör því þau ákvarðast ekki aðeins af launum og neyslu heldur einnig t.d. húsnæðiskostnaði, vaxtastigi og frítíma. Þannig gefist tækifæri til að bæta lífskjör án þess að skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna, t.d. með því að lækka kostnað í bankakerfinu, bæta útreikning húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sem notuð er til verðtryggingar, gera áætlun um að koma upp ódýru húsnæði fyrir yngri kynslóðir, breytingu á tekjuskattskerfinu í þágu lægri tekju hópa og styttingu eða aukinn sveigjanleika vinnutíma.“
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.