Almenna leigufélagið, félag í eigu sjóða GAMMA sem á 1.262 leiguíbúðir, hagnaðist um 401 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Rekstrartekjur félagsins jukust um 21 prósent frá sama tímabili í fyrra og voru 1.253 milljónir króna. Alls eru eignir Almenna leigufélagsins metnar á 45,3 milljarða króna og þar af voru fjárfestingaeignir, sem eru íbúðirnar sem félagið leigir út, metnar á 44,7 milljarða króna. Félagið skuldar 28,6 milljarða króna og því er eigið fé þess 12,7 milljarðar króna. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Almenna leigufélagsins sem birt var í dag.
Í uppgjörinu kemur fram að í byrjun júní hafi Almenna leigufélagið gengið frá kaupunum á öllum hlutum í tveimur félögum utan um fasteignir, Reykjavik Apartments ehf., X459 ehf. Auk þess keypti það helmingshlut í L56 ehf. Alls er um að ræða 70 mjög litlar íbúðir í miðborg Reykjavíkur sem verða til útleigu til skemmri og lengri tíma.
María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, segir í tilkynningu til Kauphallar, að félagið finni fyrir miklum meðbyr og ánægju meðal viðskiptavina sinna. „Það er allra hagur að hér sé byggður upp fjölbreyttur húsnæðismarkaður sem mætir þörfum ólíkra þjóðfélagshópa. Starfsemi öflugra leigufélaga, sem bjóða viðskiptavinum sínum betri þjónustu en áður tíðkaðist, er mikilvægur þáttur í því. Áætluð samanlögð markaðshlutdeild stærri leigufélaga sem starfa á almennum markaði er í dag um 12 prósent.“
Markaðsvirði Heimavalla minna en eigið fé félagsins
Á þeim markaði er nú þegar eitt almennt leigufélag, Heimavellir, sem er stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi. Heimavellir voru reknir með tapi á fyrri hluta ársins, en tap félagsins var samtals 136 milljónum króna á tímabilinu. Það tap var þó fyrst og síðast til komið vegna matsbreytinga á virði fasteigna í eigu Heimavalla. Áður en að tekið var tillit til þeirra nam rekstrarhagnaður Heimavalla á tímabilinu 1.056 milljónum króna. Það þýðir að 57,6 prósent af rekstrartekjum félagsins voru hagnaður, en það hlutfall var mun lægra á sama tíma í fyrra, eða 47,2 prósent.
Eigið fé Heimavalla var 18,6 milljarðar króna um mitt þetta ár, sem er umtalsvert meira en markaðsvirði alls hlutafjár í félaginu. Það er um 13 milljarðar króna.