Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar, bæði A og B- hluta hennar, var jákvæð um 9,1 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af var A-hlutinn, sem er hinn eiginlega rekstur borgarinnar sem er fjármagnaður með skatttekjum, rekinn með 3,7 milljarða króna afgangi á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýbirtu hálfsársuppgjöri Reykjavíkurborgar.
Til B-hluta borgarinnar teljast síðan fyrirtæki sem eru í eigu borgarinnar en sem fjármagna sig af innheimtu þjónustutekna. Þau eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningarhöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.
Alls var rekstarniðurstaða samstæðunnar jákvæð um 15,8 milljarða króna fyrir fjármagnsliði sem er 2,9 milljörðum króna betri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Í tilkynningu vegna þessa er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að niðurstaðan sýni sterkan rekstur. „Við erum á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar og fjárfestingar borgarinnar mjög miklar, í stóru og smáu. Við erum að bjóða upp á ókeypis námsgögn í fyrsta sinn, höfum aldrei malbikað eins mikið og núna og erum að byggja skóla og íþróttamannvirki víða í borginni. Um leið og við erum sækja fram á öllum sviðum, þá erum við að skila þessari sterku rekstrarniðurstöðu fyrstu sex mánuði ársins.”