Halldór Auðar Svansson, sem var oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur á síðasta kjörtímabili og einn þeirra sem mynduðu þá meirihluta, hefur ráðið sig í umönnunarstarf á bráðageðdeild Landsspítalans. Halldór tilkynnti í fyrrahaust að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri og var því ekki í framboði í borgarstjórnarkosningunum í vor, þar sem Píratar bættu við sig fylgi og mynduðu í kjölfarið nýjan meirihluta með Samfylkingu, Viðreisn og Vinstri grænum.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Halldór að hann hafi undanfarið verið að svipast um eftir næsta skrefi sínu á atvinnuferlinum. Þar hafi flest allt verið undir.
„Mér finnst ég vera að hefja alveg nýjan fasa, þar sem ég hef frekar takmarkaðan áhuga á því að snúa aftur til þess sem ég var að gera áður, að sitja við tölvu og forrita. Ástæða þess að ég hellti mér út í pólitík var sú að ég fylltist áhuga á að gefa af mér á öðrum sviðum. Sá áhugi er enn til staðar.
Eitt af því sem ég hef brennandi áhuga á er geðheilbrigði. Það er eiginlega fátt sem ég hef meiri áhuga á enda er þetta undirstaða alls annars í tilverunni. Ég hef líka persónulega reynslu af því að yfirstíga miklar áskoranir á þessu sviði sem ég vil leita leiða til að nýta.
Þegar ég sá auglýst starf á bráðageðdeild Landspítalans fannst mér því vel við hæfi að sækja um. Það fór síðan þannig að ég er að byrja í þessari vinnu á mánudaginn. Þetta er umönnunarstarf í vaktavinnu, almenn aðhlynning með allra veikasta fólkinu sem þarf mikinn stuðning við að fóta sig. Mjög krefjandi en örugglega mjög gefandi.
Ég hlakka til að takast á þessa glænýju áskorun sem ég hef tekið að mér.“