Þeir innflytjendur sem starfa á Íslandi voru 38.765 talsins um mitt þetta ár, eða 18,6 prósent starfandi fólks. Það þýðir að fleiri innflytjendur eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði en fjöldi þeirra sem búa í Kópavogi, næst fjölmennasta sveitarfélags landsins, þar sem 35.966 manns bjuggu í upphafi þessa árs.
Fjöldi þeirra er nú rúmlega fjórum sinnum það sem hann var í upphafi árs 2005 og tvöfaldur það sem hann var í byrjun árs 2015, fyrir þremur og hálfu ári.
Frá byrjun árs 2017 hefur innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði fjölgað um 11.544, rúmlega íbúafjölda Mosfellsbæjar, og á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 fjölgaði þeim um 5.310, rúmlega 700 fleiri en búa á Seltjarnarnesi. Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um starfandi fólk á Íslandi.
Í lykilhlutverki í góðærinu
Til að setja þennan fjölda innflytjenda sem starfa á Íslandi í annað samhengi má benda á að að atvinnuleysi hérlendis mældist 2,5 prósent í júlí. Það þýðir að um 5.300 manns voru án vinnu og/eða í atvinnuleit í þeim mánuði.
Því er ljóst að ef ekki væri fyrir þann mikla straum erlends vinnuafls sem komið hefur til landsins á undanförnum árum væri engin möguleiki til staðar til að manna þau nokkur þúsund nýju störf sem verða til á hverju ári á Íslandi, flest í tengslum við ferðaþjónustu.
Innflytjendurnir hafa því leikið lykilhlutverk í þeim mikla hagvexti sem hefur mælst hérlendis á hverju ári frá árinu 2011. Mestur var 2016 þegar hann var 7,4 prósent. Hagvöxtur í fyrra mældist 3,6 prósent og nýbirt þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að hann verði sá sami í ár.
Öll fjölgun vegna útlendinga
Kjarninn greindi frá því í lok júlí að öll fjölgun landsmanna á fyrri hluta ársins 2018, og vel rúmlega það, hefði mátt rekja til þess að erlendir ríkisborgara fluttu hingað til lands. Þeir eru nú orðnir 41.280 talsins og hefur fjölgað um 3.328 frá áramótum, eða um 8,7 prósent.
Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 2.360 á tímabilinu og því ljóst að landsmönnum hefði fækkað ef ekki hefði verið fyrir aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ. Fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum.