Fasteignaskattar voru 9,1 milljarður króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þeir voru 8.360 á sama tímabili í fyrra og skiluðu því 748 milljónum krónum meira en stefnt hafði verið að. Það er aukning upp á 8,9 prósent. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Reykjavíkurborgar sem birt var í gær.
Innheimt fasteignagjöld í Reykjavík jukust um 34 prósent frá árinu 2010 og fram að síðustu áramótum. Vegna ársins 2010 innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Í fyrra voru þeir 16,3 milljarðar króna. Ef tekjur borgarinnar af fasteignasköttum verða jafnháar á síðari hluta ársins 2018 og þær voru á fyrri hluta þess má ætla að þær verði 18,2 milljarðar króna í ár. Það myndi þýða að tekjur Reykjavíkurborgar vegna innheimtra fasteignaskatta hefðu aukist um 50 prósent frá árinu 2010.
Stendur til að lækka skatta á atvinnuhúsnæði
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignaskatt
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var lækkaður um tíu prósent í fyrra, úr 0,20 í 0,18 prósent. Auk þess voru afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum auknir. Í sáttmála nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, sem kynntur var í júní, kom fram að til standi að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á kjörtímabilinu úr 1,65 prósentum í 1,60 prósent.