Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur lagt fram frumvarp til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda sem í felst að öll íslensk félög sem skila ársreikningi á ensku þurfi að láta þýða hann á íslensku.
Í skýringum með frumvarpsdrögunum segir að með því sé opnað fyrir þann „möguleika að öll félög sem mikilsverða hagsmuni hafi að gæta vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda geti samið ársreikning á ensku en þá skuli ársreikningurinn þýddur á íslensku og hann vera birtur hjá ársreikningaskrá bæði ensku og íslensku.“
Það sé mikilvægt að ársreikningar séu birtir hjá ársreikningaskrá þannig að viðskiptalífið og aðrir sem þurfi að reiða sig á fjárhagsupplýsingar félaga hafi „greiðan aðgang að þeim upplýsingum og að upplýsingarnar séu á tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur.“
Samráð í gegnum samráðsgátt stjórnvalda stendur yfir til 6. september næstkomandi. Verði frumvarpið að lögum er stefnt að því að það öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2017 eða síðar.