Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir misskilnings gæta hjá þeim sem segja hinn svokallaða orkupakka 3 frá Evrópusambandinu geta opnað á að yfirráð yfir orkuauðlindum fari til Brussel.
Hann segir Alþingi ráða ferðinni og að engin yfirráð fari til Brussel þó orkupakkinn verði formlega samþykktur, en það hefur þó ekki verið gert enn.
Á Facebook síðu Björns hafa verið líflegar umræður um færslu hans á síðu sinni, þar sem hann fjallar um útúrsning vegna EES, þar sem orkupakkinn svonefndi er til umræðu. Í skrifum á Facebook síðu sinni segir Björn meðal annars: „Að sjálfsögðu ber stjórnvöldum að setja allar tryggingar og gera ráðstafanir til að verja auðlindina, þau hafa fulla heimild til þess. Lítum til þess að stóru hagsmunirnir í íslenska raforkukerfinu eru samningarnir við stóriðju, sem kaupir 80% af rafmagninu. Aðildin að EES leiðir til þess að verð undir markaðsverði eru bönnuð, sem hefur fært Íslandi tugi milljarða á ári í hærra orkuverði. Við getum auðvitað ímyndað okkur að við hefðum samið um þau hvort sem er, en að hafa ESA sem svipu hefur ekki skaðað og nær örugglega hjálpað,við að knýja fram hærri verð. Með því að hafna 3. orkupakkanum ýtum við þessu aðhaldi á brott. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvort talsmenn stóriðjufyrirtækja hafi skipað sér í fremstu röð í þessari deilu. Næsta verkefni er líklega að greina það ef enginn gefur sig fram,“ segir Björn meðal annars.
Innan Sjálfstæðisflokksins hefur orkupakkinn verið til umræðu, og var meðal annars fjölmennur fundur 30. ágúst síðastliðinn sem hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur boðuðu til í kvöld í aðalsal Valhallar, höfuðstöðva flokksins.
Miklar umræður urðu á fundinum, samkvæmt frásögn mbl.is, um fyrirhugaða samþykkt á þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Borin var upp ályktun á fundinum þar sem skorað var á forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykkja ekki orkupakkann þegar hann kæmi til afgreiðslu á Alþingi og var hún samþykkt mótatkvæðalaust, en ályktunin var svohljóðandi, samkvæmt frétt mbl.is:
„Fundurinn skorar eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði Björn Bjarnason formann starfshóps á dögunum sem falið verður það hlutverk að vinna skýrslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Auk Björns sitja í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar. Þá fær hópurinn starfsmann sem hefur aðsetur í utanríkisráðuneytinu.