Alls „snúsar“ (e. snooze) hátt í helmingur þjóðarinnar, eða 48 prósent, á morgnana samkvæmt nýrri könnun MMR. Að snúsa er að ýta á takkann á vekjaraklukkunni sem frestar hringingunni um nokkrar mínútur. Þau 48 prósent sem snúsuðu gerðu það einu sinni eða oftar, þar af 17 prósent yfirleitt einu sinni en sex prósent fimm sinnum eða oftar. Þá sögðust 39 prósent yfirleitt ekki nota snús takkann og 13 prósent svarenda nota ekki vekjaraklukku til að fara á fætur á morgnana.
Körlum reyndist öllu erfiðara að komast fram úr rúminu á morgnanna en 8 prósent þeirra sögðust að jafnaði „snúsa“ fimm sinnum eða oftar á morgnanna, samanborið við 4 prósent kvenna. Mun var einnig að sjá á „snús“ venjum eftir aldri en landsmenn undir þrítugu „snúsuðu“ meira heldur en aðrir aldurshópar. Þá kváðust 20 prósent þeirra undir þrítugu „snúsa“ fimm sinnum eða oftar og aðeins 23 prósent þeirra kváðust yfirleitt ekki ýta á „snús“ takkann, samanborið við 53 prósent þeirra á aldrinum 50-67 ára. Af þeim 68 ára og eldri voru 49 prósent sem ekki nota vekjaraklukku og einungis 15 prósent sem sögðust „snúsa“ einu sinni eða tvisvar.
Af þeim sem voru búsettir á landsbyggðinni kváðust 42 prósent yfirleitt ekki „snúsa“, samanborið við 37 prósent þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru íbúar landsbyggðarinnar (19 prósent) líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (10 prósent) til að nota ekki vekjaraklukku.
Námsmenn virtust eiga erfiðustu morgnanna af öllum lýðfræðihópum en tæp 66 prósent þeirra sögðust „snúsa“ að minnsta kosti einu sinni og 20 prósent sögðust „snúsa“ fimm sinnum eða oftar. Viljastyrkurinn til að ýta ekki á „snús“ takkann reyndist hins vegar mestur hjá stjórnendum og æðstu embættismönnum en rúm 53 prósent þeirra sögðust yfirleitt ekki falla í „snús“ gildruna.
Af stuðningsfólki Framsóknarflokksins kváðust 60 prósent ekki „snúsa“ á morgnanna sem er hærra hlutfall en hjá stuðningsfólki annarra flokka. Einungis 36 prósent stuðningsfólks Framsóknar kvaðst „snúsa“ einu sinni eða oftar á morgnanna en mestu „snúsararnir“ reyndust stuðningsfólk Flokks fólksins (57 prósent), Viðreisnar (56 prósent) og Pírata (55 prósent). Athygli vekur að stuðningsfólk Viðreisnar var sérlega kræft í „snúsinu“ en 25 prósent þeirra kváðust „snúsa” fimm sinnum eða oftar á morgnanna.