Lægstu breytilegu verðtryggðu vextir íbúðalána hækkuðu í byrjun ágúst og eru nú um 2,5 prósent. Það er í fyrsta skipti sem lægstu vextir á verðtryggðum íbúðalánum hækka síðan í mars í fyrra.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var í morgun.
Það sem af er ári hafa vaxtakjör íbúðalána almennt staðið að mestu leyti í stað ef frá eru taldir breytilegir verðtryggðir vextir lífeyrissjóðanna en þeir fóru áfram lækkandi allt fram á mitt þetta ár. Lægstu breytilegu verðtryggðu vextir íbúðalána lækkuðu úr tæpum 2,8 prósent í upphafi árs í rúm 2,4 prósent í byrjun júní síðastliðins sem var sögulegt lágmark, að minnsta kosti á þessari öld.
Vextir á íbúðalánum hafa almennt farið lækkandi hér á landi undanfarin ár, segir í skýrslunni. Lægstu óverðtryggðu vextir íbúðalána lækkuðu úr 5,87 prósent í janúar 2017 niður í 5,35 prósent í janúar 2018 eða um 0,52 prósentustig. Lægstu verðtryggðu vextir lækkuðu á sama tíma um 0,38 prósentustig.
Húsnæðiskostnaður vegna eigin húsnæðis hækkar mikið umfram almennt verðlag
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að mismunandi sé á milli landa hversu stór hluti húsnæðisútgjalda þeirra sem búa í eigin húsnæði kemur til vegna sjálfra húsnæðiskaupanna og hversu mikið er vegna annarra þátta, það er viðhalds og trygginga.
Á Íslandi eru 66 prósent alls húsnæðiskostnaðar þeirra sem búa í eigin íbúð vegna íbúðakaupa og er það nokkuð undir meðaltalinu í Evrópulöndum sem er 76 prósent. Í Þýskalandi eru 89 prósent alls húsnæðiskostnaðar vegna kaupa en í Finnlandi er hlutfallið 46 prósent, svo dæmi séu tekin.
Samkvæmt Íbúðalánasjóði hefur alls staðar á Norðurlöndum húsnæðiskostnaður fasteignaeigenda hækkað umfram almennt verðlag frá árinu 2010. Hækkunin hafi þó verið áberandi meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum undanfarin ár.
Frá árinu 2010 hefur húsnæðiskostnaður vegna eigin húsnæðis hækkað um 43 prósent umfram almennt verðlag á Íslandi, en næstmestu hækkanirnar eru í Noregi og Svíþjóð þar sem húsnæðiskostnaður hefur hækkað um 20 til 23 prósent á raunvirði á sama tímabili. Í Finnlandi hefur húsnæðiskostnaður fasteignaeigenda hins vegar aðeins hækkað um 2 til umfram almennt verðlag.
Konur líklegri til að vera á leigumarkaði
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að 18 prósent landsmanna telji líkur á að vera á leigumarkaði eftir hálft ár en Íbúðalánasjóður og Zenterrannsóknir gerðu könnun á tímabilinu 4. til 25. júlí. Hins vegar hafi að meðaltali 16 prósent landsmanna hverju sinni verið á leigumarkaði. Af þessum niðurstöðum má sjá, samkvæmt Íbúðalánasjóði, að fleiri ætla sér alla jafnan að vera á leigumarkaði eftir hálft ár en eru þar nú þegar.
Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir búsetu sést að meirihluti leigjenda telur líkur á að vera áfram á leigumarkaði, auk hluta þeirra sem eru í foreldrahúsum, segir í skýrslunni. Um 10 prósent einstaklinga 18 ára og eldri búa í foreldrahúsum og að meðaltali hafa um 17 prósent þeirra talið líkur á að þau færi sig yfir á leigumarkað á næstu mánuðum.
Í nýjustu mælingu sjóðsins mældist marktækur munur eftir kyni. Konur voru marktækt líklegri til þess að ætla vera á leigumarkaði eftir hálft ár en karlar. Um 20 prósent kvenna töldu það öruggt eða líklegt samanborið við 15 prósent karla. Marktækt fleiri konur eru einnig á leigumarkaði. Um 18 prósent kvenna leigja húsæði sitt samanborið við 12 prósent karla.