Rekstur Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og K100, þyngdist verulega árið 2017 frá fyrra ári og nam heildartap ársins 284 milljónum króna.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs, að rekstrarumhverfið sé erfitt og að það bitni á rekstrinum. „Það er kunnara en frá þurfi að segja að rekstur einkarekinna íslenskra fjölmiðla er erfiður um þessar mundir og hefur raunar verið misserum saman eins og sést af umræðunni á vettvangi ríkisvaldsins að laga rekstrarumhverfi þeirra. Árvakur hefur ekki farið varhluta af þessu og eru skýringarnar nokkrar. Samkeppnin við Ríkisútvarpið hefur farið harðnandi vegna aukinna umsvifa þess, einkum á auglýsingamarkaði. Erlend samkeppni hefur einnig harðnað mjög og þar keppa innlendir miðlar við erlenda miðla sem búa við allt aðrar aðstæður, svo sem í skattalegu tilliti og í tækifærum til auglýsingasölu. Ennfremur hefur launakostnaður hér á landi hækkað ört og fyrir fyrirtæki þar sem sá liður vegur langsamlega þyngst í rekstrinum, þá er óhjákvæmilegt að það hafi veruleg áhrif. Hluti af tapi síðasta árs stafar þó einnig af því að við erum að byggja upp nýja starfsemi og sú uppbygging hefur kostað töluvert fé, en við gerum ráð fyrir að hún muni skila sér í auknum tekjum, meiri hagkvæmni og jákvæðri afkomu,“ segir Haraldur í frétt Morgunblaðsins.
Tap fyrir skatta nam 241 milljón króna en var 48 milljónir árið áður. Versnandi afkoma skýrist af því að þrátt fyrir að tekjur hafi aukist um rúm 3% og numið 3,7 milljörðum þá jukust gjöld um tæp 9% og námu 3,9 milljörðum króna. Afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir var neikvæð um 93 milljónir króna, en var jákvæð um 99 milljónir ári fyrr.
Tap ársins nam 284 milljónum króna en árið 2016 var tapið 50 milljónir. Eiginfjárstaða er eftir sem áður sterk og var eiginfjárhlutfallið 39% um áramót, að því er segir í frétt Morgunblaðsins.
Milljarðatap og afskriftir skulda
Árvakur, sem rekur Morgunblaðið, mbl.is, Eddu-útgáfu og útvarpsstöðina K100 tapaði 49,7 milljónum króna á árinu 2016. Því rúmlega fimmfaldaðist tapið á milli ára. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 hefur félagið tapað tæplega 1,8 milljörðum króna, að meðtöldu tapinu sem fram kemur í ársreikningi Hlyns A ehf.. Tap hefur verið á rekstri Árvakurs öll árin frá því að eigendaskiptin urðu utan þess að Árvakur skilaði sex milljóna króna hagnaði árið 2013. Mest var tapið á árunum 2009-2011, en eftir það virtist reksturinn vera að ná jafnvægi að nýju á árunum 2012-2014. Tapið hefur hins vegar aukist mikið á síðustu þremur árum og nam tæpum hálfum milljarði króna frá ársbyrjun 2015 til síðustu áramóta. Hluthafar Árvakurs hafa sett inn rúmlega 1,4 milljarða króna hið minnsta í nýtt hlutafé á þeim tíma.
Viðskiptabanki Árvakurs, Íslandsbanki, hefur afskrifað um 4,5 milljarða króna af skuldum félagsins frá árinu 2009. Þorri þeirra afskrifta átti sér stað í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi á því ári. Síðari lota afskrifta átti sér svo stað árið 2011 og var upp á einn milljarð króna.
Þrátt fyrir mikinn taprekstur hefur Ávakur verið í sókn og leitað inn á nýjar fjölmiðlalendur. Félagið keypti útvarpsstöðina K100 árið 2016 og hefur fjárfest umtalsvert í uppbyggingu hennar, meðal annars með því að ráða landsþekkta fjölmiðlamenn á borð við Loga Bergmann Eiðsson, Friðriku Geirsdóttur og Rúnar Frey Gíslason til að sinna dagskrárgerð. K100 mælist með 3,8 prósent hlustunarhlutdeild hjá landsmönnum á aldrinum 12-80 ára samkvæmt nýjustu mælingum Gallup. Vinsælustu útvarpsstöðvar landsins, Bylgjan og Rás 2, eru með annars vegar 29,5 prósent hlutdeild og hins vegar 29 prósent.
Eyþór Arnalds stór eigandi
Í apríl í fyrra var tilkynnt að Eyþór Arnalds, nú oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hefði keypt 26,6 prósent hlut í Árvakri. Um væri að ræða allan hlut Sjávarútvegsrisans Samherja, hlut Síldarvinnslunnar og Vísis hf. Fyrir þann tíma höfðu fyrirtæki tengd sjávarútvegi, beint og óbeint, verið eigendur að um 96 prósent í félaginu. Eyþór hefur sagt að hluturinn sé til sölu ef að kaupandi finnst að honum.
Upplýsingar um eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, voru uppfærðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í september 2017 líkt og lög gera ráð fyrir. Þá hafði verið tekið tillit til 200 milljóna króna hlutafjáraukningar sem átt hafði sér stað í fyrra. Í Fréttablaðinu í fyrra var greint frá því að Kaupfélag Skagfirðinga hefði lagt til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, um nærri tvö prósentustig, og er nú 22,87 prósent. Kaupfélag Skagfirðinga á nú 15,84 prósent í Þórsmörk í gegnum félagið Íslenskar sjávarafurðir.
Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og áðurnefnt félag, Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Hlynur A mat eignarhlut sinn í Þórsmörk á 177,7 milljónir króna í lok árs 2016 en mat eignarhlutinn á 135 milljónir króna um síðustu áramót. Það þýðir að heildarvirði Þórsmerkur, og þar af leiðandi Árvakurs, hefur farið úr um 1.080 milljónum króna í 820 milljónir króna á einu ári.