Fjármálaeftirlitið hefur tekið fyrsta fyrirtækið sem sérhæfir sig í þjónustu um rafmyntaviðskipti til skráningar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fyrirtækjum af þessu tagi var gert skylt að skrá starfsemi sína hjá stofnuninni í kjölfar nýsettrar löggjafar sem sporna á við peningaþvætti og hryðjuverkastarfsemi, að því er segir í Morgunblaðinu.
Rafmyntir hafa notið vaxandi vinsælda á alþjóðamörkuðum á undanförnum árum en miklar sveiflur hafa þó einkennt verðmiðann á þeim flestum. Virði eins Bitcoin er nú um 7.300 Bandaríkjadalir, eða sem nemur um 770 þúsuund krónum, en hæst fór verðið upp undir 20 þúsund Bandaríkjadali í fyrra.
Fyrirtækið sem hlotið hefur skráningu sem þjónustuveitandi viðskipta með það sem skilgreint er sem sýndarfé og rafeyrir, nefnist Skiptimynt ehf. Framkvæmdastjóri þess er Hlynur Þór Björnsson. Það heldur úti rafmyntamarkaði á netinu og þar er hægt að kaupa og selja bitcoin og aurora coin í skiptum fyrir íslenskar krónur, að því er segir í Morgunblaðinu.