Hagnaður félags Hreggviðs Jónssonar, forstjóra Veritas Capital og stjórnarformanns Festar, af sölu á 12 prósenta hlut þess í Festi til N1 nemur tæplega 1,7 milljörðum króna.
Frá þessu er greint í Markaðanum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. Upplýsingar um hagnaðinn má lesa út úr nýbirtum ársreikningi eignarhaldsfélags Hreggviðs, Holdors. Eignarhluturinn var metinn á 2,7 milljarða en Hreggviður greiddi rúman milljarð fyrir hlutinn árið 2014.
Eignarhaldsfélag Holdors hagnaðist alls um 1.861 milljón króna í fyrra en 44 milljóna króna tap varð af rekstri félagsins árið 2016, að því er segir í Markaðnum.
„Hreggviður var stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi Festar með 12 prósenta hlut en í kjölfar kaupa N1 á smásölukeðjunni eignast hann um 2,9 prósenta hlut í olíufélaginu að virði um 1,2 milljarðar króna. Er hann þannig stærsti einstaki einkafjárfestirinn í N1. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjárfesting Hreggviðs í SF V hafi verið fjármögnuð með nýjum lánum að fjárhæð 890 milljónir króna á meðan innborgað hlutafé nam 200 milljónum króna,“ segir í umfjöllun um hagnað Hreggviðs í Markaðnum.