„Hlutur kynjanna er sérlega ójafn í þeim atvinnugreinum sem vaxa nú hvað hraðast, til að mynda tölvugreinum og upplýsingatækni. Eftirspurn eftir þekkingu og færni í þessum greinum er í gríðarlegum vexti og hér eru konur því miður enn í miklum minnihluta. Hið jákvæða er að konum sem ljúka námi í slíkum greinum hefur farið fjölgandi.“
Þetta er meðal þess sem segir í umfjöllun Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA, í umfjöllun í Vísbendingu sem kemur til áskrifenda á morgun. Þar er fjallað um hvaða áhrif aukin gervigreindarvæðing í atvinnulífi mun hafa á konur í atvinnulífinu.
Meðal annars er fjallað um alþjóðlegar rannsóknir um áhrifin af aukinni tæknivæðingu á vinnumarkaðinn. „Viðskiptaráð bandarískra yfirvalda (e. United States Department of Commerce) hefur bent á að konur með háskólagráður í tæknigreinum séu ólíklegri en karlar með sambærilegar gráður til að vinna í þeim geira. Í Bandaríkjunum eru um 47% kvennastarfandi en aðeins 24% í tæknigreinum. Þær eru þó 30% útskrifaðra í tæknigreinum. Sambærileg tölfræði er ekki auðfundin um konur í tæknigreinum á Íslandi en Skýrslutæknifélag Íslands hefur áætlað að konur gegni um 10-20% starfa í þessum geira. Þetta er töluverður vandi og það kannski einna helst vegna þess hve mikilvægar þessar atvinnugreinar eru. Þær móta nú allt umhverfi okkar til framtíðar, bæði í samfélaginu almennt (til að mynda í gegnum samfélagsmiðla) og ekki síður í atvinnulífinu (í gegnum hugbúnað, miðla og þjónustu). Þetta er sú tækni sem breytingar morgundagsins koma til með að byggja á, og eins og málin standa núna, þá er hún búin til af afar einsleitum hópi karla,“ segir meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.