Eitt af lykilatriðum í jákvæðri framfaraþróun í heilbrigðisþjónustunni hér á landi er að tryggja nýliðun lækna og aðstreymi nýrrar þekkingar og reynslu. Þetta segir Reynir Arngrímsson‚ erfðalæknir og formaður Læknafélags Íslands, í grein sem birtist í Læknablaðinu sem kom út í byrjun september.
Hann telur það válega stöðu þegar þeim þætti er ógnað til lengri eða skemmri tíma og bendir á að starfandi læknar á Íslandi séu í dag 1296 og erlendis starfi 815 íslenskir læknar.
„Nýliðun þarf að eiga sér stað á öllum sviðum læknisþjónustunnar. Á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 30.000 frá árinu 2010, hefur fastráðnum heilsugæslulæknum fækkað hjá öllum heilbrigðisstofnununum nema einni,“ segir hann. Meðal annars hafi stöðugildum sem setin eru af sérfræðingum í heimilislækningum hjá hinu opinbera fækkað um 13 prósent, mest á landsbyggðinni, eða frá 5 til 47 prósent. Hjá heilsugæslustöðvum í einkarekstri sem hið opinbera hefur náð að gera þjónustusamning við sé staðan önnur en þar starfi nú 29 sérfræðingar í heimilislækningum.
Reynir segir að á sjúkrahúsum hafi verið bent á að starfsaðstæður séu óviðunandi og álag á sjúkrahúslæknum á Landspítala sé fram úr hófi á mörgum deildum, til dæmis bráðamóttökunni. Bráðalæknar hafi talað fyrir daufum eyrum allt frá nærstjórnendum upp í ráðuneyti. Þar séu þeir ekki einir á báti. „Stöðuheimildum þarf að fjölga og nýliðun þarf að örva á sjúkrahúsum landsins. Þjónustuliðum verður ekki bætt þar við án slíkra aðgerða.“
Í greininni kemur fram að Læknafélag Íslands leggi áherslu á að aðgengi að faglegri þekkingu lækna sé ætíð tryggt og til staðar í landinu, þar með talið með samfelldri nýliðun lækna. Að fram fari mat á mannaflaþörf lækna á öllum sviðum sérgreinalækninga, þar með talið heimilislækna og á meðal almennra lækna. Tryggja þurfi að sérhæfð læknaþjónusta sé áfram veitt utan sjúkrahúsa með samningum um opinbera þjónustu sérgreinalækna á eigin læknastofum og heilsugæslustöðvum.
Endurskoða þarf kjör landsbyggðarlækna með stjórnvaldsátaki, samkvæmt Læknafélaginu. „Styrkja þarf þjónustu sérfræðilækna og bæta vinnuaðstæður á Landspítala og öðrum sjúkrahúsum með auknum framlögum í fjárlögum ríkisins. Að verkefni hvers þjónustuaðila séu vel skilgreind og endurskoðuð með þarfir skjólstæðinga í fyrirrúmi. Að áhersla verði lögð á gæðastarf og leiðandi hlutverk lækna.“
Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vef Læknablaðsins.