Alls var hagvöxtur hérlendis á árinu 2017 fjögur prósent, en ekki 3,6 prósent líkt og áður birtar niðurstöður höfðu gefið til kynna. Landsframleiðslan er nú 15,2 prósent meiri en hún var árið 2008. Þetta kemur fram í endurskoðuðum þjóðhagsreikningi Hagstofu Íslands.
Þar segir einnig að einkaneysla og fjárfesting hafi vegið þyngst í vexti landsframleiðslu á síðasta ári. Einkaneyslan jókst um 7,9 prósent og fjárfesting um 9,5 prósent. Þjóðarútgjöld jukust á sama tíma um sjö prósent.
Í samantekt þjóðhagsreiknings segir að útflutningur hafi verið 5,5 prósent á árinu 2017 og að umtalsvert hafi hægst á vexti hans frá fyrra ári, þegar útflutningur var 10,9 prósent. Innflutningur jókst um 12,5 prósent og þrátt fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum hefði verið 106,8 milljarðar króna í fyrra hefði utanríkisverslun dregið úr hagvexti.
Þar kemur einnig fram að afgangur af „launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum nam um 1,5 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 44,8 milljarða árið 2016 en það var í fyrsta skipti frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 að afgangur mældist af launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum.“
Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi ársins 2018 var 7,2 prósent og landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins jókst um 6,4 prósent að raungildi samanborin við fyrri helming ársins 2017.
Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir því að hagvöxtur á öllu árinu 2018 verði 3,6 prósent og því má vænta þess að hagvöxtur verði minni á síðari hluta ársins.