Í skilmálum skuldabréfaútgáfu WOW Air koma fram lánaskilmálar með gjaldfellingarheimildum sem kveða á um framkvæmd sérstakra álagsprófa þar sem bæði lausfjár- og eiginfjárstaða Wow Air má ekki fara undir tiltekin mörk. Er gert ráð fyrir að fyrsta álagsprófif vegna eigin fjár fari fram hinn 30. september næstkomandi.
Frá þessu var greint á Vísi.is í gær, en eins og fram hefur komið þá hyggst WOW Air sækja sér 50 til 100 milljónir evra í útboðinu, og er horft til þess að skrá félagið á markað í Frankfurt eins fljótt og hægt er, eins og það er orðað í frétt Vísis.
Í skilmálunum kemur fram að álagspróf vegna eiginfjár muni fara fram árlega í lok þriðja ársfjórðungs og í því megi eigið fé Wow Air ekki fara undir 25 milljónir dollara, janvirði 2,8 milljarða króna, fyrstu 12 mánuði eftir útgáfudag skuldabréfs. Og ekki undir 30 milljónir dollara í ár þar á eftir. Tveimur árum eftir útgáfudag má eigið fé ekki vera undir 35 milljónum dollara, jafnvirði 3,9 milljarða króna.
Áður hefur verið upplýst að eigið fé Wow Air var 1,5 milljarðar króna í lok júní síðastliðins, en á fyrri hluta ársins var viðskiptavildin aukin um 19 milljónir Bandaríkjadala, frá því sem hún var í lok síðasta árs, og styrkti þetta eiginfjárstöðu félagsins. Mikið tap hefur verið á rekstri félagsins að undanförnu og nam það tæplega 5 milljörðum króna frá júní í fyrra til júní á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir að reksturinn muni rétta úr kútnum seinni hluta þessa árs, en samt verði tapið 3,3 milljarðar.
Líklegt er að niðurstaða muni ligga fyrir í skuldabréfaútboðinu fyrri partinn í næstu viku, og kemur þá í ljós hversu mikla fjármuni félagið getur náð sér í og á hvaða vaxtakjörum.