Ein leið til að bæta samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja væri að lækka skatta og væri lækkun tryggingargjalds þar augljós kostur. Þetta kemur fram í pistli á vegum Samtaka atvinnulífsins (SA) sem birtist í fréttaveitu Keldunar í morgun. Þá greinir pistlahöfundur frá því hvers megi vænta megi á komandi þingi, að mati SA.
„Slík aðgerð myndi hjálpa fyrirtækjum að mæta miklum launakostnaði á næstu árum samfara minnkandi umsvifum í hagkerfinu. Stjórnvöld hafa hafa í fjármálaáætlun sinni boðið lækkun tryggingargjalds um 0,25% á árinu 2019. Það er jákvætt skref en því miður of lítið m.t.t. stöðunnar á vinnumarkaði,“ segir í pistlinum.
Endurskoða þarf veiðigjaldið
Þá segir að stjórnvöld hafi jafnframt boðað tekjuskattslækkun einstaklinga í neðsta þrepi en einnig þurfi að huga að öðrum aðgerðum. Þar megi nefna endurskoðun á skattstofni fjármagnstekna, lækkun á tekjuskatti fyrirtækja, almennar skattalækkanir einstaklinga sem og einföldun á skattkerfinu í heild sinni.
Þá þurfi að endurskoða veiðigjaldið þannig að gjaldstofninn endurspegli betur afkomu greinarinnar með minni tímatöf en verið hefur. Afnema þurfi hið fyrsta sérstaka skatta á tilteknar atvinnugreinar eins og gistináttagjald og bankaskatt.
Enginn tími betri en nú
Í pistlinum segi enn fremur að ef hægja fer á hagkerfinu geti stjórnvöld ekki treyst á mikinn tekjuvöxt til að fjármagna aukin útgjöld ár frá ári. Samtök atvinnulífsins hvetja því stjórnvöld til að huga að samkeppnishæfni þjóðarbúsins og nýta vel tímann framundan til endurskipulagningar og hagræðingar í ríkisrekstri þannig að unnt verði að draga til baka skattahækkanir eftirhrunsáranna.
„Sú skattastefna sem stjórnvöld móta í fjárlögum næsta árs skiptir gríðarlega miklu máli út frá samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Enginn tími er betri en nú til að skapa það svigrúm sem til þarf í rekstri ríkisins til að lækka skatta á fyrirtæki og heimili í landinu.“