HB Grandi hyggst kaupa Ögurvík ehf. fyrir 12,3 milljarða króna, fáist til þess samþykki frá stjórn og hluthafafundi. Um þetta var tilkynnt 7. september síðastliðinn. Þá eru viðskiptin einnig háð samþykki Samkeppniseftirlitsins um samruna þann sem kaupin leiða til. Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé og lánsfjármagni, segir í tilkynningu. Hlutabréfin verða afhent við greiðslu kaupverðs.
Brim hf., sem Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, á, er eigandi Ögurvíkur en Brim keypti félagið í júlí 2016. Verðmiðinn í þeim viðskiptum hefur ekki komið fram opinberlega. Umsvif Brims hafa hins vegar aukist mikið að undanförnu, enda er félagið nú orðið að kjölfestuhluthafa í HB Granda.
Eigið fé Brims nam í árslok 2016 um 23 milljörðum króna, en heildarskuldir voru á sama tíma 31 milljarður króna. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar enda keypti félagið hlutinn í HB Granda fyrir um 22 milljarða króna.
Eins og fjallað var ítarlega um á vef Kjarnans síðastliðinn föstudag, þá hefur Landsbankinn verið helsti viðskiptabanki Brims og Guðmundar.
Umfangsmikil viðskipti
Viðskiptin teljast verulega umfangsmikil á íslenskan mælikvarða, en til samanburðar þá er upphæðin sem tilkynnt hefur verið um hærri en sem nemur markaðsvirði Origo, áður Nýherja, en markaðsvirði þess félags er nú tæplega 10 milljarðar. Þá jafngildir verðið um 56 prósent af markaðsvirði VÍS en markaðsvirði þess félags er 21,9 milljarðar króna.
Félagið var með 747 milljónir í eigið fé í lok árs. Eignir námu 6,25 milljörðum króna en skuldir 5,5 milljörðum króna. Þar af voru langtímaskuldir í erlendri mynt, 4,8 milljarðar króna.
Verðmiðinn sem tilkynnt var um til kauphallar er því 16,4 sinnum eigið fé félagsins, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra.
Allt annar margfaldari
Til samanburðar er verðmiðinn á HB Granda nú 56,5 milljarðar króna, en eigið fé félagsins var um mitt þetta ár 250 milljónir evra, eða sem nemur um 32,5 milljörðum króna. Markaðsvirðið er því 1,7 sinnum eigið fé félagsins.
Heildareignir HB Granda námu um mitt þetta ár 514 milljónum evra, eða sem nemur um 66,8 milljörðum króna.
Stærsti hluthafi HB Granda er Brim hf. með tæplega 38 prósent hlut. Aðrir stærstu hluthafar eru einkum lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 13,66 prósent, LSR 9,94 prósent, Gildi lífeyrissjóður 8,62 prósent, Birta lífeyrissjóður 3,95 prósent og aðrir hluthafar eiga minna, en samanlagt 28,8 prósent. HB Grandi er eina sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi sem skráð er á aðallista kauphallar Íslands.