Á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25 til 34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Staða karla er aðeins verri á Ítalíu, Spáni og Portúgal af löndum Evrópu sem eiga aðild að OECD menntatölfræðinni. Um 24 prósent karla á þessum aldri hafa ekki lokið námi eftir grunnskóla en hlutfallið er 15 prósent fyrir konur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018.
Í samantekt úr skýrslunni sem unnin var á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að munurinn milli kynjanna sé óvíða jafn mikill og á Íslandi eða 9 prósentustig og að því leyti svipar Ísland einnig til landa í sunnanverðri álfunni. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi sé munurinn 3 til 4 prósent en í Danmörku er 7 prósentustiga munur.
Menntunarstig kvenna í þessum aldursflokki er hærra en karla, eins og fyrr segir. Hlutfallið fyrir karla er 7 prósentustigum hærra en OECD meðaltalið en munurinn fyrir konur er aðeins einu prósentustigi hærra en meðaltalið. Þetta hlutfall hefur þó verið að minnka, segir í samantektinni. Árið 2007 var hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar í aldursflokknum 25 til 34 ára 31 prósent og hefur því lækkað um 7 prósentustig á einum áratug. Þetta hlutfall hefur farið lækkandi almennt innan OECD og er lækkunin að meðaltali um 5 prósentustig á áratugnum.
Finnland stendur best að vígi
Hjá konum var samsvarandi lækkun því árið 2007 var hlutfallið 28 prósent og hefur því lækkað um 13 prósentustig. Meðaltalslækkun hjá OECD var sömuleiðis 5 prósentustig fyrir konur á tímabilinu. Í Noregi hefur verið athyglisverð þróun því þar hefur hlutfall bæði karla og kvenna sem hafa ekki lokið framhaldsskólamenntun í þessum aldursflokki hækkað en ekki lækkað á áratugnum frá 2007 til 2017. 21 prósent karla og 17 prósent kvenna höfðu ekki lokið námi eftir grunnskóla í Noregi árið 2017.
Í Danmörku standa karla litlu betur en 21 prósent karla eru í sömu stöðu og 13 prósent kvenna. Í Svíþjóð er samsvarandi hlutfall 19 prósent fyrir karla og 15 prósent fyrir konur. En Finnland stendur áberandi best að vígi á Norðurlöndunum að þessu leyti en þar var hlutfallið 11 prósent fyrir karla og 8 prósent fyrir konur.
Staðan betri varðandi háskólamenntun
Staðan á Íslandi er aftur á móti mun betri þegar litið er til háskólamenntunar. Í aldursflokknum 25 til 64 ára höfðu 21 prósent Íslendinga lokið bakkalársgráðu árið 2017. Meðaltalshlutfall OECD var 17 prósent. Íslendingar standa þannig betur að vígi en Norðurlöndin, hlutfallið var 19 prósent í Noregi, 17 prósent í Svíþjóð og Finnlandi en 21 prósent í Danmörku.
Í samantektinni segir að þessar tölur komi á óvart því yfirleitt hafi þeim tölum verið slegið fram sem hafa sýnt að Norðurlöndin standi mun framar en Ísland. En þessar tölur sýni að munurinn hefur aðallega verið fólginn í styttri námsgráðum, diplómagráðum, sem eru mun algengari á hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi voru 3 prósent sem luku diplómagráðu en engri annarri æðri gráðu, en hlutfallið í Noregi, Svíþjóð og Danmörku var á bilinu 10 til 12 prósent.
Sömu sögu er að segja af þeim sem hafa hlotið meistaragráðu. Á Íslandi höfðu 17 prósent af fólki á aldrinum 25 til 64 ára lokið meistaragráðu árið 2017. Meðaltal OECD var 12 prósent og á Norðurlöndum var hlutfallið lægra en á Íslandi, 13 prósent í Danmörku, 11 prósent í Noregi, 14 prósent í Svíþjóð og 15 prósent í Finnlandi.