Loðdýrabændur á Íslandi standa frammi fyrir miklum vanda vegna mikilla lækkana á heimsmörkuðum á skinnum. Þeir vilja að stjórnvöld komi að því að aðstoða bændur og greinina í heild sinni.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Vegna þriggja magurra ára og sífellt lækkandi verðs minkaskinna á heimsmarkaði og hækkandi framleiðslukostnaðar hér á landi er fjárhagsstaða loðdýrabænda orðin það slæm að allir eru farnir að íhuga stöðu sína, hvort þeir treysti sér til að halda áfram eða hvort ráðlegt sé að hætta.
Útslagið gerir síðasta uppboð ársins þar sem verðið fellur enn. Niðurstaða ársins í heild er 20% verðlækkun frá síðasta ári, að því er segir í Morgunblaðinu. Styrking krónunnar á undanförnum árum, gagnvart helstu myntum, hefur vafalítið ekki heldur hjálpað til.
Á árunum eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar færðist aukið líf í loðdýrarækt, en þá fengust góð verð fyrir skinnin, og samkeppnisstaða greinarinnar varð betri, í kjölfar gengisfallsins.
Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir að miklar fjárfestingar hafi átt sér stað í greininni að undanförnu og hætta sé á því að þekking og fjármunir tapist, ef ekki verður gripið í taumana.