Afgangur af rekstri ríkissjóðs verður 29 milljarðar króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem verið er að kynna. Alls er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist um 52 milljarða króna milli ára en útgjöld um 55 milljarða króna.
Á meðal þeirra breytinga sem boðaðar eru í frumvarpinu eru hækkun á persónuafslætti um eitt prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu og að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neysluverðs. Í tilkynningu segir að við þetta verði jafnræði milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu meira og skattgreiðslur almennings lækka um 1,7 milljarða króna.
Þá á að hækka barnabætur um 1,6 milljarða króna frá gildandi fjárlögum sem er 16 prósent hækkun milli ára. Auk þess er gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á á barnabótum sem er ætlað að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Vaxtabætur verða einnig hækkaðar um 13 prósent frá áætlun um umfang þeirra á þessu ári.
Tryggingagjaldið verður lækkað í byrjun næsta árs um 0,25 prósent og aftur um sömu prósentutölu í ársbyrjun 2020. Samanlagt munu þessi tvö lækkunarskref skila 9,3 prósent lækkun á gjaldinu.
Stuðningur vegna húsnæðis verður samtals 25,4 milljarðar
Stuðningur vegna húsnæðis á að aukast um 900 milljónir króna á næsta ári og verður þá 25,4 milljarðar króna alls. Sá stuðningur er veittur eftir nokkrum leiðum, til dæmis í formi húsnæðisbóta, með stofnframlagi til byggingar almennra íbúða og útgreiðslu vaxtabóta.
Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 12,6 milljarða króna á árinu 2019 en þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landsspítala. Alls er áætlað að 7,2 milljarðar króna fari í þær á árinu. Þá stendur til að auka framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála um 13,3 milljarða króna.
Fjárfestingar í innviðum verða aukna meðal annars með 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála vegna tímabundins átaks í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með tímabundnum umframarðgreiðslum fjármálafyrirtækja líkt og boðað var í gildandi fjármálaáætlun. Gert er ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verði aukin um níu prósent á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 43,6 milljarðar króna.
Vaxtagjöld ríkissjóðs hafa lækkað um 26 milljarða
Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt síðustu ár. Á sex ára tímabili hafa þær lækkað um samtals 658 milljarða króna. Þar skiptir mestu greiðslur frá slitabúum föllnu bankanna vegna stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru árið 2015. Þegar skuldirnar voru sem mestar, árið 2011, voru þær 86 prósent af landsframleiðslu en verða 31 prósent í lok árs 2018. „Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 88 ma.kr. en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 milljónir á klukkustund.“ segir í tilkynningunni.
Skuldir ríkissjóðs munu fara undir viðmið fjármálareglna laga um opinber fjármál í fyrsta sinn á næsta ári og útlit er fyrir að vaxtagjöld verði um 26 milljörðum krónum lægri á næsta ári en þau voru árið 2011.
Í tilkynningunni segir að lokum: „Auk þess sem skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar hafa háar fjárhæðir verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar, en þessar aðgerðir auka sjálfbærni ríkisfjármálanna til langs tíma litið og koma í veg fyrir að núlifandi kynslóðir taki út lífskjör á kostnað þeirra sem á eftir koma. Áformuð stofnun Þjóðarsjóðs með lagasetningu á þessu þingi, sem ætlað er að safna upp arði af orkuauðlindum, getur stutt við þessa stefnu um sjálfbærni opinberra fjármála.“