Seðlabanki Íslands greip inn viðskipti á gjaldeyrismarkaði í dag, og gekk hröð veiking krónunnar gagnvart helstu alþjóðlegu myntum, að mestu til baka eftir það, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu á vef sínum.
Nokkurs titrings hefur gætt á markaði í dag, og hafa hlutabréf fallið í verði - hjá öllum félögum nema Icelandair. Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 9,21 prósent en öll önnur félög hafa lækkað í verði, á bilinu 0,5 til 4,5 prósent, en mest hefur lækkunin verið á bréfum N1, eða um 4,47 prósent.
Svo virðist sem fjárfesta hafi áhyggjur af því að flugfélagið WOW Air lendi í vandræðum með að ljúka fjármögnun upp á 50 til 100 milljónir evra, eins og að hefur verið stefnt.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gærkvöldi, hefur gengi krónunnar veikst nokkuð að undanförnu. Evran kostar nú um 131 krónu og Bandaríkjadaldur 113,5 krónur. Í dag var gengi krónunnar gagnvart þessum myntum búið að veikjast töluvert meira, en Bandaríkjadalur var kominn í 115,7 krónur og evran í tæplega 135 krónur, áður en Seðlabankinn greip inn í með viðskiptum.